Um áratugaskeið hefur vöktun á laxastofni Langár á Mýrum verið umfangsmikil. Rannsóknir fiskifræðinga hafa m.a. sýnt áhrif fiskgengdar, vatnafars, veiðiálags og veiðiaðferða á hrygningastofn, hrognaþéttleika og seiðabúskapinn í ánni.
Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur, hefur um árabil annast þessar rannsóknir. Hann segir stöðu Langárstofnins sterka og hrósar veiðimönnum fyrir ábyrga hegðun á undanförnum árum. Þannig hafi veiðifyrirkomulagið og auknar sleppingar tryggt viðgang stofnsins. Það hafi sannarlega sýnt sig sumarið 2019, þegar laxgengd var lítil og veiðimenn tóku höndum saman um að sleppa veiddum fiski.
“Það má kannski segja að vatnsleysið síðasta sumar hafi verið lán í óláni, þar sem aðstæður drógu úr veiðinni. Fyrir ofan Sveðjufoss var veiðihlutfallið undir 20%, sem er það lægsta sem mælst hefur frá því rannsóknir hófust sumarið 1974. Fyrirfram var búist við slöku sumri, þar sem klakárgangur 2015 var lítill og því var biðlað til veiðimanna að sleppa sem mestum fiski. Veiðimenn tóku vel í þá ósk og slepptu fiski í meira mæli en nokkru sinni fyrr! Það skilaði sér svo sannarlega, því lágt veiðihlutfall og miklar sleppingar urðu til þess að hrognaþéttleiki ofan við Sveðjufoss mældist í haust 3.0 hrogn/m2. Það eru frábærar niðurstöður,” segir Sigurður Már.
Á árunum 2000-2002 og 2014 voru göngur upp fyrir Sveðjufoss svipaðar og í fyrra, en veiðihlutfallið miklu hærra og litlu var sleppt. Fyrir vikið var hrygningarstofn og hrognaþéttleiki lítill. Með breyttum veiðireglum og samstilltu átaki veiðimanna á síðasta veiðisumri eru líkur til þess, að klakárgangurinn 2020 verði miklu betri veiðitölur sumarsins gáfu tilefni til að ætla.
SVFR fagnar þessum rannsóknarniðurstöðum, enda er laxastofn Langár á Mýrum einstakur. Það sama á við um samtarf SVFR og veiðifélags árinnar, sem vinna saman að því að tryggja vöxt og viðgang þessarar veiðiperlu á Mýrunum. SVFR þakkar félagsmönnum jafnframt fyrir þeirra framlag og ábyrga breytni á veiðislóð.