Þá er fyrsta sumrinu sem við bjóðum aftur upp á veiðileyfi í Korpu/Úlfarsá lokið. Skráðir voru til bókar 115 laxar og 9 silungar. Við vitum af því að einhverjir bókuðu ekki fiskana sem þeir veiddu og okkur þætti vænt um að allir sem ekki gerðu það myndu heyra í okkur og láta okkur vita á netfangið [email protected]. Það skiptir ekki öllu máli kannski en til þess eru nú skráningar í veiðibók, til að fylgjast með göngum í árnar og veiðihlutfalli.
Teljari er í ánni, staðsettur við stífluna við Korputorg. Teljarinn taldi frá 6. júlí og síðan þá taldi hann að 295 fiskar hefðu gengið upp og í gegnum teljarann. Eitthvað af því voru sjóbirtingar sem má glögglega sjá því tekið er myndskeið af hverjum fiski sem fer upp. Sumir birtinganna voru þokkalega stórir.
Af þeim 115 löxum sem skráðir voru í bókina voru 53 teknir á flugu en 62 á maðkinn. Stærsti laxinn sem skráður er í bók var 75 cm en tveimur slíkum var landað í sumar.
Þegar uppi er staðið var sumarið í sumar eilítið lakara en árið áður en þó munar ekki nema 3 löxum. Við vonum að næsta ár verði frábært og að vatnsstaða haldist góð og göngur í ánna verði rosalegar.