Kastað til bata

Kastað til bata 2021

Í síðustu viku lauk verkefninu Kastað til bata 2021 sem er á vegum Krabbameinsfélagsins, Brjóstaheill – samhjálpar Kvenna og styrktaraðila, þar sem konum er boðið til veiðiferðar og hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini. Markmiðið er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa fluguköst í fögru umhverfi, njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu – og veiða ef heppnin er með.

SVFR er stoltur stuðningsaðili og hefur stutt við verkefnið síðustu ár ásamt fleiri öflugum aðilum sem koma að því og má þar nefna Veiðihornið.

Tvö holl
Í ár fóru tveir 10-12 kvenna hópar í Langá og dvaldi hvor hópur í 2 daga í senn.  Konurnar fengu kennslu frá leiðsögumönnum í fluguköstum sem og tilsögn í veiði í straumvatni og hvernig best er að bera sig bæði varðandi veiðar og hvernig skal vaða í straumvatni.
Verkefnið tókst mjög vel og óhætt er að segja að þátttakendur voru kátir og glaðir með ljúfa daga við Langá.

Fjölgun kvenna í veiði og leiðsögn
Það hefur ekki farið framhjá veiðimönnum að þátttaka kvenna í veiði hefur farið vaxandi og í fyrsta skipti í sögu kastað til bata voru veiðikonur við leiðsögn. Af átta leiðsögumönnum sem komu að verkefninu voru fjórar konur við leiðsögn.

Við viljum þakka öllum þeim sem komu að verkefninu fyrir þeirra framlag.

SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir