Kastað til bata um Hvítasunnuhelgina.

Um Hvítasunnuhelgina var hin árlega ferð í Langá á Mýrum undir formerkjum verkefnisins „Kastað til bata“. Verkefnið er endurhæfingarverkefni á vegum Krabbameinsfélagsins, Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, og styrktaraðilum. Stangveiðifélag Reykjavíkur er stoltur styrktaraðili verkefnisins og Kvennanefnd SVFR kemur að þátttöku fyrir hönd félagsins.

Verkefnið hefur verið haldið frá árinu 2010 og byggt á bandarískri fyrirmynd „Casting for recovery“ og er hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini, þar sem þeim er boðið í veiðiferð þeim að kostnaðarlausu. Veiðihornið styður við verkefnið m.a. með því að lána vöðlur og veiðistangir auk þess að gefa þátttakendum flugur.

Í ár tóku 15 konur þátt héðan og þaðan af landinu. Umjónarmenn verkefnisins til margra ára eru þær Auður Elísabet Jóhannsdóttir fyrir hönd Krabbameinsfélagsins og Guðrún Kristín Svavarsdóttir fyrir hönd Brjóstaheilla sem halda einstaklega vel utan um hópinn.

Þær nutu svo leiðsagnar veiðikvenna á vegum Kvennanefndar SVFR. Leiðsögn er alfarið í höndum kvenna innan SVFR og komust færri að en vildu enda einstaklega skemmtilegt verkefni hér á ferð.

Konurnar fengu kastkennslu við veiðihúsið og var því næst haldið út að á þar sem kennt var að vaða yfir straumvatn þar sem vaðið var yfir Langá fyrir ofan Neðri-Hvítstaðahyl. Þá fengu konurnar að æfa sig að kasta flugu í straumvatn undir leiðsögn kvennanefndarkvenna og má með sanni segja að það hafi verið frábær stemming í hópnum og mikil gleði.

Anna Þórunn Reynis sagði svo frá sögu Langár og byggingu laxastigans við Sveðjufoss sem er lengsti laxastigi landsins og á hann sér merka byggingarsögu, sem vakti mikla lukku.

Kvennanefnd SVFR þakkar fyrir samveruna en það er eitt af markmiðum nefndarinnar að auka hlut kvenna í stangveiði og að kynna fluguveiði fyrir áhugasömum tilvonandi veiðikonum.

Kvennanefnd SVFR,

Sæunn, Helga, Rún og Þóra Sigrún

 

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir