Kastað til bata 2018

 

Kastað til bata 2018

Þann 3. – 5. júní síðastliðinn var Kastað til bata haldið við Varmá sem rennur við Hveragerði. Það voru ánægðar veiðikonur sem héldu heim á leið þriðjudaginn 5.júni eftir tveggja daga endurhæfingaferð á vegum Brjóstaheill og  Ráðgjafarþjónustu krabbmeinsfélagsins. Helstu stuðningsaðilar þessa verkefnis eru SVFR og Veiðihornið og sá SVFR um að leiðbeina veiðikonunum við Varmá. Þær voru nær allar að prófa veiðar í fyrsta skipti og er alveg örugglega búið að kveikja veiðiáhugann hjá nokkrum þeirra. Þær voru í góðu yfirlæti og höfðu nóg að gera enda þétt dagskrá hjá þeim jafnt við veiðar sem í öðrum uppbyggilegum dagskrárliðum fyrir bæði sál og líkama.

Þetta er í níunda sinn sem „Kastað til bata“ verkefnið er í boði og hafa þátttakendur verið afar ánægðir.

Markmiðið er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa fluguköst í fögru umhverfi, njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu – og veiða ef heppnin er með.

“Kastað til bata” er verkefni á vegum Brjóstaheill -Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila, þar sem konum er boðið til veiðiferðar. Verkefnið hófst árið 2010 og er hugmynd frá Bandaríkjunum „Casting for recovery“  og hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini.

SVFR er stoltur stuðningsaðili Kastað til bata.

Hér fyrir neðan koma nokkrar myndir frá viðburðinum.

 

 

 

By admin Fréttir