Kastað til bata 2023

Dagana 4.-6. júní sl. var farin ferð í Langá á Mýrum undir formerkjum verkefnisins „Kastað til bata“. Verkefnið er endurhæfingarverkefni á vegum Brjóstaheilla – samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila.

Stangveiðifélag Reykjavíkur er stoltur styrktaraðili verkefnisins og heldur Kvennanefnd SVFR utan um verkefnið fyrir hönd félagsins.

Verkefnið hefur verið haldið frá árinu 2010 og byggt á bandarískri fyrirmynd og er hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini, þar sem þeim er boðið í veiðiferð þeim að kostnaðarlausu.

María í Veiðihorninu kom og færði konunum góðar gjafir, en rétt er að nefna það verslunin styður við verkefnið m.a. með því að lána vöðlur og veiðistangir auk þess að gefa þátttakendum flugur.

Í ár tóku 14 konur þátt í verkefninu en utan um hópinn héldu þrír sjálfboðaliðar Brjóstaheilla auk þess sem þær nutu leiðsagnar veiðikvenna á vegum Kvennanefndar SVFR.

Gaman er að segja frá því að þetta er þriðja árið í röð þar sem leiðsögn er alfarið í höndum kvenna innan SVFR og komust færri að en vildu enda einstaklega skemmtilegt verkefni.

Konurnar fengu kastkennslu við veiðihúsið og var því næst haldið út að á þar sem kennt var að vaða yfir straumvatn þar sem vaðið var yfir Langá fyrir ofan Neðri-Hvítstaðahyl.

Þá fengu konurnar að æfa sig að kasta flugu í straumvatn undir leiðsögn kvennanefndarkvenna auk þess sem Sveðjufoss var heimsóttur og sagt var frá sögu Langár og laxastigans við fossinn.

Óhætt er að segja að allar sem ein hafi notið verunnar í Langárbyrgi og á bökkum árinnar.

 

 

 

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir