Veiðimaðurinn, málgagn Stangaveiðifélags Reykjavíkur, er nú kominn úr prentun og farinn í dreifingu til félagsmanna.
Blaðið er fjölbreytt að vanda. Má þar nefna umfjöllun um Vatnsdalsá í Vatnsfirði en eins og margir vita hefur SVFR gert samning um sölu veiðileyfa í ána næsta sumar.
„Skýrsla staðarhaldara í Langá” er einkar fróðleg lesning eftir Kristján Friðriksson, sem var staðarhaldari við ána síðasta sumar.
Fjallað er ítarlega um stöðu mála í Varmá, sem hefur verið lokuð veiðimönnum í tvö sumur vegna mengunar frá fráveitukerfi Hvergerðinga.
Veiðimaðurinn fjallar um spútnikflugur sumarsins. Þetta eru veiðiflugur sem sumir en þó alls ekki allir kannast við. Hér er sem sagt ekki verið að fjalla um Frances eða Sunray heldur Bóbó og Lord Hrútfjörð svo dæmi sé tekið.
Fyrir silungsveiðifólkið er áhugaverð grein um hvernig fólk á að bera sig að þegar það egnir fyrir silungi með þurrflugu. Einnig er fjallað um veiðina í Mývatnssveitinni síðasta sumar, sem og nýja og glæsilega bók um urriðasvæðin fyrir norðan.
Árni Elvar H. Guðjohnsen, sem er mörgum félögum SVFR kunnugur, er í viðtali í ritinu. Segja má að veiðin sé Árna Elvari í blóð borin því langafi hans í föðurætt, Friðrik Þorsteinsson, er einn af stofnendum SVFR.
Veiðikonan Sigrún Þorleifsdóttir er að þessu sinni gestur í liðnum Tíu af Tíu, sem er orðinn fastur liður í Veiðimanninum.
Þá fékk Veiðimaðurinn tvo matgæðinga til að gefa lesendum uppskriftir að hátíðlegum forréttum þar sem lax og silungur leika aðalhlutverk.
En það leynast ekki eingöngu mataruppskriftir í Veiðimanninum en gaman er að segja frá því að nú er einnig að finna prjónauppskrift í blaðinu. Það er hún Helga okkar Gísladóttir sem deilir með lesendum uppskrift af veiðigrifflum úr léttlopa svo nú getur prjónaóða veiðifólkið farið að láta sig hlakka til.
Þetta og ýmislegt fleira eins og umfjöllun um ungmennastarfið, nýja bók Árna Baldurssonar og flugulínur er að finna í jólablaði Veiðimannsins.
Athugið að það má lesa öll síðustu blöð Veiðimannsins hér á vefnum okkar svfr.is/vm og eldri veiðimenn má skoða á timarit.is.
Já, nú mega jólin koma!