Horft til baka – sumarið 2021

Vonandi áttir þú góðar stundir á nýloknu veiðitímabili, stundir sem eru orðnar að góðum minningingum sem gott er að ylja sér við nú þegar veturinn er skollinn á. Búið er að að loka öllum ársvæðum en undirbúningur fyrir næsta veiðitímabil er í fullum gangi. Endurbókanir eru að klárast og for- og félagaúthlutun er handan við hornið og verða kynntar sérstaklega.

Laxveiðin var misgóð eftir ársvæðum en flestar ár toppuðu tölur síðasta sumars. Andakílsá stendur uppi sem aflahæsta laxveiðiá landsins per stöng en að meðaltali veiddust 2.88 laxar á stöng á dag þar í sumar!

Elliðaár, Korpa og Leirvogsá enduðu í hærri veiðitölum en í fyrra og var altalað um hversu mikið væri af laxi í þeim, þannig viljum við hafa þær. Barnadagar í Elliðaánum slógu í gegn eins og oft áður og var afar góð mæting, árnar skiluðu sínu og fengu ófáir ungir veiðimenn lax. Þá var höfðinginn í Elliðaánum, Árbæjarhylnum sigraður af Herði Birgi og er myndin hér ofan af honum og höfðingjanum sem mældist 95 cm að lengd.

Haukadalsá og Langá voru ekki langt frá veiðitölum síðasta sumars og voru í takt við flestar aðrar ár á Vesturlandi. Líkt og með Flekkuna var veðurfar að stríða veiðimönnum en það vantaði ekki laxinn, takan var bara það sem vantaði.

Flekkudalsá gaf ekki marga fiska en veiðimenn voru varir við talsvert af fiski á mörgum stöðum og með rigningunni kom takan.

Sandá gaf stóra laxa en líkt og með aðrar ár á Norðausturlandi var veiðin dræm og einkenndist sumarið af háu hitastigi og þurrkum. Vatnsleysi er hinsvegar aldrei vandamál í Sandá því hún heldur vatni afar vel.

Gljúfurá var ein af þeim ám sem gaf fleiri fiska heldur en í fyrra. Eins og hún er þekkt fyrir var haustið afar sterkt og veiddist vel eftir rigningar.

Þverá í Haukadal glímdi við vatnsskort fram eftir sumri, þeir sem þekkja ánna vita að hún er lítil og viðkvæm og þarf maður gjarnan að læðast að veiðistöðum.

Laugardalsá var aðeins undir væntingum en veiðin var jöfn og þétt yfir tímabilið. Í ánna gengu tveir fiskar yfir 100 cm og fengu nokkrir veiðimenn að glíma við þá en laxarnir höfðu betur.

Silungsveiðin var upp til hópa frábær, það voru áberandi stórir fiskar að veiðast á flestum svæðum og það vantaði ekki sjóbleikjuna fyrir norðan og vestan.

Urriðasvæðin í Laxá voru frábær, urriðinn var afar vænn og veiddust fiskar um og yfir 70 cm á báðum svæðum. Hitabylgja sumarsins setti ákveðinn punkt í veiðina en þess í stað hélst áin tiltölulega hrein allt tímabilið – veiðimönnum til mikillar ánægju.

Flókadalsá stóð fyrir sínu, nóg var af bleikju og veiddust allt að 99 fiskar í holli. Eins og í Laxá setti hitabylgjan strik í reikninginn en það var aðallega út af snjóbráð.

Gufudalsá stóð sig eins og venjulega, það var mikið af bleikju og áin sýndi fram á af hverju hún er fullkomin fyrir fjölskylduna.

Varmá var afar góð, sjóbirtingurinn var mættur einstaklega snemma og voru menn að veiða nýgengna fiska um miðjan júní! Svæðið fyrir ofan Reykjafoss var eins og oft áður öflugast síðari hluta tímabils og hafa menn verið að fá afar væna fiska alveg fram í lok tímabils.

Núna eru flestir veiðimenn að dusta rykið af hnýtingagræjunum og undirbúa næsta tímabil, við erum líka á fullu í undirbúning og munum hefja félagaúthlutun um miðjan nóvember!

Strekktar línur,
Starfsfólkið á skrifstofunni

By SVFR ritstjórn Fréttir