Gríðarlegt magn af hoplaxi er á leið til sjávar og í morgun mátti sjá laxa í þúsundatali í strengnum við gömlu rafstöðina. Greinilegt er að veiða/sleppa fyrirkomulagið er að hafa góð áhrif á laxabúskapinn í ánni en að hoplax skuli safnast saman í svo miklu magni á leið til sjávar er fáheyrt og verður að teljast afar sjaldgæft. Þá er sérlega ánægjulegt að sjá hvað laxinn er í góðu ásigkomulagi en það er líkt og hann keppist við að stökkva og gera vart við sig. Eitt er víst að þetta er einstakt sjónarspil sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara og hvetjum við fólk til að fjölmenna áður en það verður of seint.