Hagkvæm veiði í frábærri bleikju- og laxveiðá

– Frábært fyrir vinahópa og fjölskyldur

Bíldsfellssvæðið í Soginu er er einstakt fluguveiðisvæði og í huga margra er Bíldsfell einn samfelldur veiðistaður. Ótrúlega margir eiga þó enn eftir að upplifa töfra svæðisins, sem geymir bæði stórar bleikjur og lax í veiðilegum strengjum, straumbrotum og ólgum.

Veiði í Bíldsfelli er mjög hagkvæmur og áhugaverður kostur fyrir veiðimenn, þar sem saman fer mikil náttúrufegurð og húsakostur í hæsta gæðaflokki. Í tveimur samliggjandi húsum eru átta rúm í fjórum herbergjum, fullbúið eldhús, útigrill o.s.frv. og því ætti ekki að væsa um stóra vinahópa eða fjölskyldur sem vilja láta drauminn rætast. Hægt er að gera mjög góð kaup í Bíldsfelli, t.d. í byrjun júlí þegar stangardagurinn kostar 17.900 kr. fyrir félagsmenn með húsinu inniföldu. Allar stangirnar þrjár kosta því 53.700 kr., sem er svipað og sólarhringsafnot af sambærilegu sumarhúsi á svæðinu. Í raun mætti segja, að leigu á veiðihúsinu fylgdu þrjú veiðileyfi fyrir fjölskyldur og vinahópa, sem vilja renna fyrir bleikju eða freista þess að setja í stórlax.

Veiðisvæði Bíldsfells er víðfemt og fiskar geta leynst víða. Það getur reynst erfitt fyrir óvana að lesa í vatnið á svæðinu og á það sinn þátt í að skapa leyndardóma Bíldsfells. Þrátt fyrir að áin sé stór og breið er hægt að skipta henni upp og veiða hvert svæði eins og verið væri að veiða einn hyl í talsvert minni á.

Veiðileyfi í Bíldsfell eru fáanleg í vefsölu SVFR, þar sem félagsmenn njóta sérkjara. Við bjóðum alla veiðimenn velkomna í félagið.

Bóka veiðileyfi í Bíldsfellið

By SVFR ritstjórn Fréttir