Góður ágústdagur í Þverá

Okkur þykir fátt skemmtilegra en þegar félagsmenn deila sögum úr veiði en feðgarnir Fannar Tómas Zimsen og Óli Björn Zimsen gerðu góða ferð í Þverá í byrjun mánaðarins og við gefum þeim orðið;

Það var snemma morguns, um klukkan átta, laugardaginn 3. ágúst sem við feðgarnir fórum í Þverá í Haukadal. Veður var fínt til útiveru, smá gjóla og sólin skein, þegar við lögðum bílnum við gömlu brúna og gengum af stað upp hlíðina. Við gengum ofan við gilið í u.þ.b. klukkutíma en ákváðum svo að færa okkur niður að ánni. Þar prufuðum við tvo veiðistaði en fengum ekkert. Síðan héldum við áfram upp eftir gilinu og leituðum á hverjum stað að fiski. Á leiðinni upp úr gilinu prófuðum við nokkra veiðistaði og héldum því næst áfram upp á efra svæðið. Þar var nú ekki mikið um álitlega veiðistaði svo áfram gengum við í leit að meira spennandi stöðum en fundum í raun enga og vorum við það að snúa við þegar við gengum meðfram nokkuð straumhörðum bakka og sáum fisk á pínulitlum veiðistað. Hann var fældur. Miðað við að það hafi verið fiskur á þessum stað ákváðum við að kíkja á alla mögulega staði sem fiskur gæti stoppað á og skoða staði sem maður hefði alla jafna ekki talið veiðistaði og alltaf gengið fram hjá án þess að skoða annars staðar. Í raun vorum við alltaf að leita að svona týpískum veiðistöðum og á þessari leið okkar sáum við tvo fiska sem fældust. Þegar við gengum örlítið ofar gengum við fram á 10-15 fiska í stað/streng með örlitlu dýpi en þar náðum við fjórum fiskum og settum í nokkra aðra.

Eftir þetta prófuðum við allt sem mögulega gat kallast veiðistaður og í flestum tilfellum voru fiskar á þessum stöðum og tóku þeir mjög vel. Á litlum stöðum, hér og þar á leið upp með ánni, náðum við svo fjórum fiskum. Við gengum aðeins upp fyrir Ármótin en snerum fljótt við og á niðurleið köstuðum við aftur á nokkra staði, sem við höfðum fengið fisk á fyrr um daginn, en það var eins og takan hefði bara alveg dottið niður og við urðum ekkert varir. Á leið niður gilið, þar sem við þurftum að þvera ána nokkuð oft, sáum við fallega veiðistaði en fiskur var hvergi sjáanlegur. Í raun vorum við mjög heppnir að hafa ekki séð þessa veiðistaði strax í upphafi því þeir voru mun álitlegri en staðirnir sem við fengum fiskana okkar á fyrr um daginn. Mögulega hefðum við bara farið niður gilið og ekki reynt efra svæðið. Hver veit? Við vorum mjög sáttir með daginn og góða samveru en jafnframt þreyttir á líkama og sál eftir mikið labb.

Óli Björn Zimsen með fallegan smálax úr Þverá.

 

By Eva María Grétarsdóttir Fréttir Þverá í Haukadal