Gleðilegt nýtt veiðiár!

Þá er árið 2023 gengið í garð og mörgum vafalaust farið að klæja í puttana yfir komandi tímabili enda styttist óðum í opnun fyrstu ársvæðanna. Formleg niðurtalning er í það minnsta hafin og ekki nema 81 dagur þar til vorveiðin hefst í Korpu, Leirvogsá og Varmá þann 1. apríl nk.

Eins og við er að búast verður nóg um að vera á nýju ári og ýmislegt spennandi á döfinni á komandi vikum og mánuðum. Helst ber þar að nefna niðurstöður úr úthlutuninni, sem lauk rétt fyrir jól, en þær munu liggja fyrir áður en mánuðurinn er á enda. Ef allt gengur að óskum mun svo almenn sala veiðileyfa hefjast í kjölfarið með opnun vefsölunnar í byrjun febrúar.

Við viljum vekja sérstaka athygli á Viðburðadagatalinu okkar sem er að finna undir flokknum Félagsstarfið efst á forsíðunni en þar kennir ýmissa grasa og á morgun, þriðjudaginn 10. janúar kl. 19:30, munu handóðir hnýtarar láta til sín taka í höfuðstöðvum SVFR.

Það gleður okkur að tilkynna að bráðlega munu Fræðslukvöldin hefja göngu sína á ný en stefnt er á að fyrsta kvöldið fari fram fimmtudaginn 26. janúar. Félagsmenn, og aðrir áhugasamir, geta því heldur betur farið að láta sig hlakka til herlegheitanna!

Nú ef það er eitthvað sem brennur á ykkur, kæru félagsmenn, þá erum við aldrei lengra en símtal eða tölvupóst í burtu og ávallt til þjónustu reiðubúin.

Strekktar línur,
Skrifstofan

By SVFR ritstjórn Fréttir