Glæsileg bók um Norðurá komin út!

Norðurá enn fegurst áa, eftir Jón G. Baldvinsson, fyrrverandi formann og Gullmerkjahafa SVFR, er nýlega komin út og þar ættu aðdáendur Norðurár sannarlega að fá eitthvað bitastætt enda fáir sem þekkja Norðurá betur en hann.

Útgáfuhóf verður haldið í Veiðiflugum á fimmtudaginn kemur frá 16-19 vegna bókarinnar “Norðurá – enn fegurst áa”. Allir velkomnir.

Jón G. Baldvinsson hefur verið eitt þekktasta nafnið í heimi stangveiðimanna á undanförnum áratugum. Ekki síst fyrir þátttöku sína í félagsstörfum og hagsmunagæslu fyrir stangveiðimenn sem formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, formaður Landssambands stangaveiðifélaga og ekki síður fyrir framlag hans til verndunar laxastofna í norður Atlantshafi sem stjórnarmaður i NASF – verndarsjóði villtra laxastofna í N.- Atlantshafi, sem stofnaður var og stýrt af Orra Vigfússyni. Jón lagði mikið af mörkum við undirbúning netauppkaupa í Hvítá í Borgarfirði. Þegar samningar netabænda í Hvítá og veiðiréttareigenda Borgarfjarðar virtust ætla að sigla í strand var leitað til Jóns. Hann lagði fram sáttatillögu sem varð grundvöllur þeirra samninga sem gerðir voru um uppkaup neta í Hvítá. Æ síðan og fram á þennan dag hafa laxar bergvatnsánna í Borgarfirði átt frjálsa för um Hvítá.

Veiðiáhugi Jóns vaknaði mjög snemma og fyrstu veiðiferðirnar fór hann í Elliðavatn og Meðalfellsvatn frá 13 ára aldri. Var honum ekið upp að vatni og hann skilinn eftir helgarlangt, ásamt félaga sínum, með nesti og viðlegubúnað. Fyrsta laxinn veiddi hann í Korpu í ágúst árið 1961. Það sama ár gekk Jón í SVFR, þá 17 ára og var kjörinn í stjórn félagsins árið 1970. Hann sat í stjórn SVFR yfir 20 ár og þar af sem formaður í 6 ár. Norðurá veiddi hann fyrst árið 1967 en hún var á þessum árum og allt fram til ársins 2012 flaggskip þeirra ársvæða sem SVFR hafði á leigu. Sem forystumaður í SVFR kynntist Jón Norðurá og samfélagi veiðiréttareigenda þar. Það var upphafið að góðum vinskap hans við marga veiðiréttareigendur við ána og auk þess tók hann algeru ástfóstri við Norðurá. Það ástarsamband varir enn og dvelur Jón stærstan hluta ársins í húsi sínu á bökkum árinnar og veiðir í henni árlega. Um árabil var Jón einn eftirsóttasti leiðsögumaðurinn við Norðurá, bæði vegna þekkingar sinnar á ánni en ekki síður vegna þeirrar nærgætni og virðingar sem hann beitir er hann nálgast veiðar við ána og allt umhverfi hennar.

Samhliða stjórnarsetu í SVFR tók Jón ávallt fullan þátt í störfum árnefndar Norðurár og eftir að stjórnarsetu lauk hefur hann stýrt starfi árnefndarinnar. Nefndin sér um að undirbúa ána fyrir veiðar á hverju ári og í hana hafa allt frá upphafi valist félagar í SVFR sem deila ástríðunni fyrir Norðurá og hennar fagra umhverfi. Hefur Jón lýst því svo að óviðjafnanlegt sé að fá að koma að ánni að vori þegar hún er að vakna úr dvala og undirbúa fyrir sumarið. Setja þarf upp kláfinn, smíða stiga og bera á, koma út bátum, laga aðgengi, merkja veiðistaði og hlúa að húsakosti.

Jón G. Baldvinsson var sæmdur gullmerki SVFR fyrir störf sín fyrir félagið árið 2000.

Þekking Jóns á Norðurá er einstök. Hann hefur ritað leiðarlýsingu þar sem hann fer með Norðurá frá upptökum til ósa og lýsir veiðistöðum árinnar, aðkomu að þeim, staðháttum og straumlagi hyljanna, líklegum tökustöðum og deilir með lesandanum minningarbrotum frá einstaka veiðistöðum. Þessi innsýn Jóns í undraheim Norðurár birtist nú lesendum hér í bókarformi og mun án efa koma öllum að gagni sem hug hafa á að læra á Norðurá en ekki síður er það skoðun mín að hún verði lesendum til ánægju og yndisauka.

Með orðum ágæts blaðamanns: “Sá mikli veiðijarl, Jón G. Baldvinsson hefur sent frá sér bókina Norðurá enn fegurst áa. Titillinn endurspeglar það veiðilega ástarsamband sem höfundur hefur átt við drottninguna í Borgarfirði.” – Eggert Skúlason á MBL.is

Þekking Jóns á Norðurá er einstök og í þessari bók galopnar hann á upplifun sína og gríðarlega reynslu af ánni og deilir með lesendum. Bókin er ítarleg veiðistaðalýsing frá fjalli til fjöru þar sem að Jón lýsir gaumgæfilega aðkomu að veiðistöðum, staðháttum og straumlagi hyljanna og líklegum tökustöðum. Auk þess deilir hann hér með lesendum áhugaverðum minningarbrotum frá einstaka veiðistöðum.

Þessi bók er að sjálfssögðu gríðarleg verðmæti fyrir alla sem hafa áhuga á að kynnast Norðurá náið, en einnig augnayndi öllu veiðifólki sem heillast af ástríðunni og tengslunum við náttúruna og vatnið eins og skín svo vel í gegnum skrif Jóns.

Hér má kynna sér nánar heimasíðu bókarinnar: https://norduraennfegurstaa.is/

Með veiðikveðju,

SVFR

 

 

 

 

 

 

By Ingimundur Bergsson Fréttir