Gætum átt von á betri laxveiði

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur segir að skilyrði í hafi og aðstæður í ám séu betri en oft áður, sem bendi til þess að við gætum átt von á meiri veiði í sumar en í fyrra. (Ljósmynd – Golli).

Eftir Ingólf Örn Björgvinsson

Síðasta veiðiár var satt best að segja ekki upp á marga fiska. Þó vorum við mörg bjartsýn, enda hafði sumarið 2022 gefið ögn betri veiði en árin tvö þar á undan.

Þegar árnar voru opnaðar byrjaði veiðin vel, sem jók enn á bjartsýnina, en fljótlega dró ský fyrir sólu. Það var einfaldlega ekki nóg af laxi. Þurrkar og vatnsleysi víða bættu síðan ekki stöðuna. Það var helst í Vopnafirði sem sást til sólar og Norðausturlandið skilaði ágætri veiði í heild. En nánast alls staðar annars staðar var veiðin vel undir meðallagi. Lítil veiði, slysasleppingar úr laxeldi, hnúðlax og verðhækkanir ættu ekki að vekja bjartsýni fyrir komandi sumar. Og þó. Ef það er eitthvað sem einkennir laxveiðifólk er það óbilandi trú. Það er alltaf næsta kast, næsti hylur, næsti túr. Eða næsta ár!

Hitastigið heilli gráðu hærra

Einn af þeim sem hafa rannsakað laxagengd í íslenskum ám er Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Hann hélt áhugavert erindi í Langárbyrgi nú í vor þar sem meðal annars var fjallað um tengsl laxagengdar og fæðuframboðs á uppeldisstöðvum í hafi. Veiðimaðurinn leitaði til hans og spurði um horfurnar í sumar.

„Ef ég á að vera spekingslegur get ég sagt að það eru tvö atriði sem hafa mest áhrif á laxagengd. Það eru aðstæður í hafi á fæðuslóð og aðstæður í ánum sjálfum. Þó virðast skilyrði í hafi hafa sýnu mest áhrif. Við vitum nokkuð vel út frá merkingum seiða á Vesturlandi að beitisvæðin eru afmörkuð suðvestur af landinu. Við skoðuðum hitafar þar yfir sumarmánuðina og tengsl þess við endurkomu úr hafi ári síðar og það var þá sérstaklega hiti í júlí sem hafði mest áhrif. Þetta byggist á 30–40 ára gagnaröð sem styður það.

Því hærri hiti, því betra fyrir seiðin og þá betri endurheimt. Í fyrra gekk lax sem hafðist við á fæðuslóð sumarið 2022 og gekk út það vor og var hitinn þar þá 10°. Í fyrra var hitastigið heilli gráðu hærra, eða 11°, og má af því leiða að við gætum átt von á betri laxveiði í ár en í fyrra. Í það minnsta eru líkur á að á Vesturlandi nálgist laxveiðin meðaltal. Við værum þá að horfa á eitthvað 14 eða 15 þúsund laxa, sem væri talsvert betra en veiðin síðustu fimm ár.“

Vongóður um betri veiði

Sigurður bætir við að mikill breytileiki hafi verið í veiði síðan 2012. Árin 2013 og 2015 voru mjög góð en þá var gott hitastig sjávar á fæðuslóð. Þessar sveiflur orsakast meðal annars af hlýnun jarðar.

„Við hækkandi hitastig bráðnar Grænlandsjökull hraðar og kælir sjóinn sunnan og vestan við Ísland. Einnig þýðir hlýrri vetur hér minni snjó og því lakari vatnsmiðlun yfir sumarið eins og 2019 og að einhverju leyti í fyrra, allavega á Vesturlandi. Það skal tekið fram að laxinn á Austurlandi sækir fæðu í Noregshaf og þar eru önnur lögmál. Ég er fyrst og fremst að tala um Vestur- og Suðurland og þetta má yfirfæra á Norðvesturland líka. En skilyrði í hafi og aðstæður í ánum eru betri en oft áður og benda til þess að við eigum von á meiri veiði en í fyrra. Ég bind vonir við að það raungerist. Það er ekki öruggt en ég er bjartsýnn á bata.“

Svo mörg voru þau orð og ættu að glæða von um betri tíð við bakkann í sumar.

Grein þessi birtist í nýjasta tímaritinu af Veiðimanninum, smellið hér til að nálgast rafræna útgáfu af Veiðimanninum.

By Árni Kristinn Skúlason Fréttir