Á hátíðarfundi stjórnar SVFR í morgun var Guðrún E. Thorlacius, félagsmaður nr. 1, sæmd gullmerki félagsins. Um þessar mundir eru 78 ár liðin frá því að hún skráði sig í SVFR fyrst kvenna. Fundurinn var haldinn í Baðstofu iðnaðarmanna, þar sem félagið var stofnað fyrir sléttum 80 árum. Meðal stofnfélaga var faðir Guðrúnar, Einar Tómasson, kolakaupmaður og annálaður stangveiðimaður.
Guðrún er fædd árið 1925 og gekk í Stangaveiðifélagið 16 ára gömul, árið 1941. Hún veiddi lengi vel með föður sínum og kenndi síðar sínum eigin afkomendum handtökin við árbakkann. Hluti þeirra var viðstöddur í athöfnina í morgun. Guðrún var hrærð við móttöku merkisins, enda hafa aðeins 18 fengið gullmerki félagsins. Í þeim hópi eru menn á borð við Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi forseta Íslands, Ólafur Noregskonungur, borgarstjórar og fyrrverandi formenn félagsins. Yfirlit yfir gullmerkjahafa má sjá hér.
.