Fréttir úr Langá

Það er ágætis gangur hjá okkur í Langá þrátt fyrir erfið skilyrði frá 25. júní en þá rigndi hér eld og brennistein sem gerði það að verkum að áin hækkaði um meter í vatni.  Síðan þá hefur hún sjatnað og er núna í sannkölluðu gullvatni.  Það eru reglulega góðar göngur í ána og veiðistaðir að fyllast hver af öðrum.  Núna eru langflestir veiðistaðir neðan og með Neðri Hvítstaðahyls komnir inn og það er gaman að sjá veiðistaði eins og Svörtubakka, Háhólskvörn og Tunnustreng fulla af fiski en þessir tveir fyrst nefndu hafa gefið afar fáa laxa á síðasta áratug eða svo.

Það skemmtilega við þetta er að það er enginn einn staður heitari en annar að undanskildum Breiðunni og Strengjum er þar niður frá er allt pakkað af laxi.  Hollið sem var að ljúka veiðum í dag var með 37 laxa og glímdi við hávaðarok, kalda á og rigningu allann tímann svo þetta var eins erfitt og það verður.  Menn voru að missa mikið af laxi og ég er ekki frá því að hlutfallið hafi verið þrír á móti einum sem segir svolítið mikið um hvað það er komið af laxi í ána.

Það er alveg ljóst að það holl sem mætir þegar áin hlýnar upp í 12-13 gráður og fær vonandi skaplegt veður á eftir að gera gott mót hér við bakkann.

Heildarveiðin er komin í 259 laxa.

By SVFR ritstjórn Fréttir