Fréttir héðan og þaðan

Ársvæði SVFR opna eitt af öðru um þessar mundir og opnaði Hítará í gær og Langá nú í morgun. Í fyrramálið opna svo Elliðaárnar, Haukadalsá og Straumfjarðará.

Þetta er það helst sem við höfum frétt:

Langá: Alls veiddust 15 laxar á morgunvaktinn í Langá í dag og verður það að þykja mjög gott. Laxinn var nokkuð dreifður og veiddust meðal annars laxar í Kríubreiðu og Hrafnseyri sem verður að þykja gleðitíðindi að laxinn sé orðinn svo dreifður um ánna. Nokkuð var um 2ja ára lax í bland við smálaxinn og voru nokkrir laxar í kringum 85-90cm sem komu á land. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu í Langá.

Hítará: Nú í hádeginu eftir 3 vaktir voru komnir 16 laxar á land á 4 stangir og var mest af þeim löxum sem komu á land þeim veiðistöðum sem eru fyrir neðan veiðhús, Breiðinni, Kverkinni, Steinastreng og Steinabroti. Við fengum fregnir af einum 20 pundara sem hafði lekið af eftir nokkuð góða baráttu og 500 metra hlaup niður með ánni. Gott vatn er í ánni, en kalt var á morgunvaktinni í morgun og fór því nokkuð rólega af stað.

Við færum ykkur brakandi ferskar fréttir af bakkanum á morgun þegar opnanir úr öðrum ám verða ljós.

By admin Fréttir