Fréttir af veiðislóð

Það hefur verið mikið um að vera undanfarið, margar ár að opna og mikið húllumhæ í gangi. Við höfum aðeins heyrt í veiðimönnum og staðarhöldurum og hér er smá fréttapakki um gang mála á svæðunum.

Korpa

Á opnunardaginn 27. júní var rólegt yfir svæðinu. Veiðimenn urðu ekki varir um morguninn en á seinni vaktinni urðu veiðimenn varir við c.a. 10 laxa í Berghyl en þeir tóku ekki neitt. Menn fóru víða um ána og sáu ekki laxa. Nú í morgun fengum við símtal frá þeim sem er að veiða í dag og hafði hann landað tveimur löxum kl. 9.30, öðrum í Fossinum en hinum í Berghyl. Það var flóð og því Sjávarfoss á kafi en hann sagði að það væri mikill hamagangur þar niður frá og fiskur að stökkva og skvetta sér. Það veit á gott með næstu daga.

Grjótá / Tálmi

Áin virðist ætla að vera eitthvað sein í gang þetta árið en aðeins er búið að landa tveimur fiskum enn sem komið er. Báðir fengust í Tálmafossi.

Hítará

Við heyrðum í forsvarsmanni þeirra sem voru við veiðar 24. – 26. júní. Hann sagði að þau hefðu ekki orðið vör við fiska fyrir ofan Langadrátt en sáu fiska þar, í Grettisstiklum, Breiðinni, Kvörninni og Flesjufljóti. Á sunnudagskvöldið sáu þau mikið af fiski þar en á mánudagsmorgunn virtust þeir farnir. Hollið landaði 4 fiskum og misstu aðra 4-5. Hann var tregur í töku fiskurinn.

Gljúfurá

Áin opnaði 25. júní og opnunarhollið er 1,5 dagur. Hollið náði 9 löxum en 66 laxar eru gengnir upp teljarann hingað til.

Bíldsfell

Á opnunardaginn var einum laxi landað og einn lak af. Einnig náði veiðimaður 3 sjóbirtingum og 3 bolta bleikjum. Í gærkvöldi náðist einn lax sem við vitum af, c.a. 8 punda grálúsugur hængur á Görðunum. Einnig var landað 4 punda bleikju.

Alviðra

Heyrðum í einum sem var að veiða á dögunum en hvorki hann né þeir sem voru með honum urðu varir við fisk.

Haukadalsá

Það sama virðist uppi á teningnum í Haukadalsá og Hítará. Þar sjá veiðimenn fisk en hann er tregur til töku. Erum ekki með heildartöluna ennþá en fáum þær fréttir í kvöld og komum áfram til Angling.is

Elliðaár

Síðustu fréttir eru þær að þar virðist vera flottur gangur á málum, mikið af fiski og fín veiði.

Langá

Þar er góður gangur, flottar göngur og fínasta taka. Hollið sem er að veiðum núna landaði til að mynda 22 löxum í gær og misstu slatta. Einn leiðsögumaðurinn sem er við störf sagði okkur að svakaleg ganga hafi komið inn í gær.

 

Þar með lýkur þessum fréttapakka í dag. Við hvetjum veiðimenn til að senda okkur fréttir af svæðunum ásamt myndum svo við getum miðlam fréttunum áfram. Vinsamlegast sendið á [email protected]

Með veiðikveðju,
SVFR

By admin Fréttir