Frá Baðstofufundi að fjöldahreyfingu

Stangaveiðifélag Reykjavíkur er 80 ára í dag.

Aðdragandi að stofnun félagsins var sá, að hinn 9. maí 1939 komu 16 menn sem stunduðu veiðar í Elliðaánum saman til fundar í Hótel Vík til þess að undirbúa stofnun „allsherjar veiðifélags”. Á þeim fundi var kosin fimm manna nefnd til að undirbúa stofnun veiðifélagsins sem í framhaldinu boðaði til stofnfundar hinn 17. maí sama ár í Baðstofu iðnaðarmanna. Á stofnfundinn mættu 48 veiðimenn og lögðu grunninn að þeirri fjöldahreyfingu sem Stangaveiðifélag Reykjavíkur er í dag. Ekki aðeins er SVFR eitt fjölmennasta ungmennafélag landsins heldur einnig stærsta stangaveiðifélag í heimi, eftir því sem næst verður komist. Víða er stangaveiði elítusport, en hérlendis er hún almenningsíþrótt, ástríða, náttúruupplifun og tómstund um 60 þúsund veiðimanna á öllum aldri. SVFR er hryggsúlan í íslenska veiðisamfélaginu, félag með mikla sögu og bjarta framtíð.

Félagar í SVFR ætla að halda upp á daginn með margvíslegum hætti. Stjórn félagsins mun efna til hátíðarfundar í Baðstofunni, þar sem félagið var stofnað fyrir sléttum 80 árum, og verður fundurinn fyrir opnum dyrum. Þar er ætlunin að minnast þeirra frumkvöðla sem komu að stofnun félagsins, heiðra þá sem barist hafa fyrir hagsmunum stangveiðimanna og náttúrunnar og fólk sem hefur fylgt félaginu í gegnum súrt og sætt. Fyrsti formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, Gunnar E. Benediktsson, kvað nokkrar ástæður hafa legið til grundvallar stofnun þess. Ein hafi verið sú að útvega félagsmönnum veiðileyfi á hagstæðu verði, en fjársterkir erlendir aðilar voru þá þegar farnir að yfirbjóða „mörlandann” á veiðileyfamarkaðnum. Önnur ástæða og veigamikil hafi verið verndun Elliðaánna, sem hafi á þeim tíma átt í vök að verjast vegna framkvæmda við árnar og „óheiðarlegra veiðiaðferða”. Það má því segja að Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafi verið stofnað utan um Elliðaárnar, sem enn í dag eru bakbein og heimavöllur félagsins. Eru þeir enda ófáir veiðimennirnir sem ýmist hafa stigið sín fyrstu veiðispor á bökkum Elliðaánna, eða notið þar dýrðarstunda á ævikvöldinu. Félagið er stolt af sinni sögu og því fórnfúsa starfi sem félagsmenn hafa unnið við að viðhalda Elliðaánum sem einni af perlum íslenskrar náttúru.

Mikið hefur þó breyst frá stofnun félagsins. Það sem áður þótti sérviskusport er orðið almennings- og fjölskylduíþrótt. Nú er félagatalan kominn í um 2.500 og allar aðstæður gerbreyttar frá því sem áður var. Áhugi á stangveiði hefur aukist, viðhorf til veiðinnar, fisksins og náttúrunnar hafa þróast í takt við tímann. Stangaveiðifélag Reykjavíkur leigir nú um 20 veiðisvæði víðsvegar um land og hefur til ráðstöfunar rúmlega 7.400 stangaveiðidaga á þessu sumri fyrir lax og silung, og eru þá ekki talin með vötn sem félagið hefur til umráða. Þau gildi sem frumkvöðlar félagsins höfðu að leiðarljósi eru enn í hávegum höfð, líkt og má lesa út úr lögum SVFR. Stangaveiðifélagið leggur megináherslu á að efla hróður stangaveiði með almennri fræðslu um íþróttina og stuðla að því að veiðimenn umgangist náttúruna af virðingu og tillitssemi. Hið öfluga félagsstarf gengur út á að styrkja stöðu stangaveiði sem almennings- og fjölskylduíþróttar og efla áhuga barna og unglinga á stangaveiði, með fræðslustarfi og kennslu í veiðileikni. Stangaveiðifélag Reykjavíkur mun eftir sem áður vinna að samstöðu stangaveiðimanna og standa vörð um rétt þeirra og hagsmuni.

Í dag, á milli kl. 17 og 19, efnum við til afmælishátíðar við höfuðstöðvar félagsins í Elliðaárdal þar sem margt áhugavert er á boðstólum og eru allir sem vilja samgleðjast okkur hjartanlega velkomnir. Ég árétta að lokum þakklæti til þeirra 48 frumkvöðla er komu saman í Baðstofu iðnaðarmanna fyrir 80 árum og stofnuðu Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Sú framsýni og kraftur sem frumkvöðlarnir sýndu fyrir 80 árum er enn til staðar á þessum merku tímamótum.

– grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. maí eftir Jón Þór Ólason, formann SVFR

By admin Fréttir