Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig á flugukastnámskeið Kastklúbbs Reykjavíkur sem hefst klukkan 20:00 á sunnudagskvöldið kemur – 16. apríl. Námskeiðið er fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna þar sem farið verður yfir öll atriði einhendukasta og er þetta því kjörið tækifæri til að afla sér góðrar þekkingar og auka færni sína.
Kennslan fer fram innanhúss í TBR húsinu, Gnoðarvogi 1, eftirfarandi sunnudagskvöld; 16. / 23. / 30. apríl og 7. maí. Í framhaldinu taka svo við tvær kvöldstundir við Rauðavatn en dagsetningar verða tilkynntar síðar og taka mið af veðurspá.
Þátttakendur þurfa einungis að mæta með innanhússkó í fyrstu fjóra tímana en fá lánaðar stangir til að hlífa flugulínunum. Í útikennslunni mætir fólk með sinn eigin búnað. Starfsfólk Veiðiflugna mun veita ráðleggingar varðandi flugustangir, línur og tauma og þá gefst þátttakendum m.a. tækifæri á að prófa spennandi flugustangir og flugulínur.
Skráning fer fram á [email protected] og er námskeiðsgjald 25.000 kr. Posi verður á staðnum fyrsta kvöldið og eru þátttakendur hvattir til að mæta tímalega en kennslan hefst stundvíslega klukkan 20:00 og stendur alla jafna í tvo klukkutíma.