Flott veiði hefur verið í Varmá undanfarnar vikur, uppistaðan af veiðinni kemur fyrir ofan Reykjafoss en einnig hefur verið góð veiði á neðri svæðunum. Margir stórir sjóbirtingar hafa veiðst og eru nokkrir komnir á land sem eru um og yfir 80cm sem er alveg magnað því Varmá er alls ekki stór á! Fiskurinn er vel dreifður um svæðið og mælum við með að veiðimenn prófi eins marga veiðistaði og þeir geta, ekki festast í vinsælustu stöðunum og prófa þá sem eru mun minna veiddir. Svæðið inni í Hveragerði er lítið stundað og er það oft mjög sterkt á haustin, þar eru flottar breiður og djúpir strengir sem geyma alltaf fiska.
Helst hafa menn verið að fá drekana á litlar púpur veiddar andstreymis en sú aðferð hefur margsannað sig í gegnum tíðina, PT í ýmsum útfærslum hefur verið sterk en einnig squirmy, héraeyra og rubberlegs púpur. Þegar áin er í frekar miklu vatni koma straumflugurnar sterkar inn og hefur Dýrbíturinn gefið best í ár.
Það eru mjög skemmtilegir dagar lausir í Varmá, það verður án efa góð veiði næstu daga eftir rigninguna. Laus leyfi má sjá hér.
Við viljum þekkja Aroni Jarli fyrir myndina sem fylgir fréttinni, hann er fastagestur í Varmá og er hægt að fylgjast með honum á Instagram. Endilega fylgiði honum – @arondrifter