Fimm ótroðnar slóðir á Fjallinu í Langá

Karl Lúðvíksson, oftast kallaður Kalli Lú, hefur veitt í Langá um árabil. MYND / Aðsend

Þegar veiðimenn veiða fjallið í Langá er auðvelt að festast í Kamparí og Koteyrarstreng, enda frábærir veiðistaðir. Fjallið býður hins vegar upp á svo mikið meira og fékk Veiðimaðurinn hinn þrautreynda veiðimann Karl Lúðvíksson, eða Kalla Lú, til að benda á fimm staði sem þú mátt ekki láta framhjá þér fara.
Eftir Trausta Hafliðason

Langá á Mýrum er án vafa ein fallegasta á landsins. Hún er gríðarlega fjölbreytt og aðgengileg fyrir veiðimenn, því að slóðar liggja að nánast hverjum einasta veiðistað árinnar.

Efri hluti árinnar kallast fjallið. Það er svæði sem teygir sig frá Sveðjufossi og upp að Ármótafljóti, sem er efsti veiðistaður árinnar, númer 93. Þar skammt fyrir ofan er Langavatn, þar sem Langá á upptök sín.

Á Fjallinu rennur áin um gil en einnig eru eyrar um miðbik svæðisins. Þekktustu og vinsælustu veiðistaðirnir eru einmitt á þessum eyrum og er þá helst verið að tala um Kamparí, Neðri Kamparí og Koteyrarstreng. Þessi staðir geyma alltaf laxa og þar geta veiðimenn eytt löngum tíma. Þá gleymist stundum að á fjallinu eru margir aðrir góðir veiðistaðir, sem sumir eru allt of lítið stundaðir.

Karl Lúðvíksson, oftast kallaður Kalli Lú, hefur veitt í Langá um árabil. Hann var staðarhaldari við ána um nokkurra ára skeið og hefur einnig verið leiðsögumaður þar. Hann þekkir því hvern streng og hvert grjót í ánni. Veiðimaðurinn fékk Kalla til að benda á fimm veiðistaði á fjallinu sem unnendur Langár ættu að prófa. Hann byrjar efst og veiðir niður ána.

 

Hornbreiða – # 88

Hornbreiða er algjört skyldustopp og mér finnst hin síðari ár að hún sé farin að gefa betur en Flúðahola, sem er númer 87 og því næsti veiðistaður fyrir neðan. Veiðimenn þurfa að koma mjög varlega að Hornbreiðunni og byrja nógu ofarlega, því fiskurinn getur legið þar við stórt grjót sem er í miðri ánni. Síðan getur hann legið alveg niðri á breiðunni sjálfri, þar sem vatnið er lygnt. Í réttu vatni er þetta einn af fimm bestu veiðistöðum fjallsins. Þegar veiðimenn eru komnir hingað veiða þeir auðvitað líka Efra-Horn, sem sést vel á myndinn, sem og Flúðaholu, sem er næsti veiðistaður fyrir neðan Hornbreiðu.

Mynd / Einar Rafnsson

 

Kotafossbreiða – # 85

Ég nefni næst Kotafossbreiðu en mér finnst sorglegt hvað margir sleppa þessum veiðistað. Aðkoman er svolítið erfið. Gengið er meðfram klettum niður ána og þegar þangað er komið þarf að ganga aftur undir klettunum, upp með ánni, til að komast að veiðistaðnum. Hér þurfa veiðimenn að fara mjög varlega og passa að styggja ekki hylinn. Þarna er alltaf fiskur og oft vænir laxar. Kotafossbreiða er fjölbreyttur veiðistaður og geggjuð áskorun fyrir þá sem kunna að hitsa. Það þarf að byrja fyrir neðan fossinn, þar sem hvítfyssið hættir og veiða alveg niður á brot. Laxinn getur legið víða en er mest frá miðju og niður á brot.

Mynd / Einar Rafnsson

 

Hellisbreiða – # 73

Þriðji veiðistaðurinn er sitthvor veiðistaðurinn, sem liggja hlið við hlið. Þetta eru Hellisbreiða og Hellishylur. Þessir veiðistaðir liggja tiltölulega nálægt veginum og það eru algeng mistök að veiðimenn byrji að skyggna staðinn, en það má alls ekki því þá er búið að sprengja hann. Eftir 20. júlí er alltaf lax á Hellisbreiðu og í Hellishyl. Á Hellisbreiðu getur lax legið víða en mest um miðja breiðuna fyrir framan stein, sem sést vel þar sem vatnið brýtur á honum. Í miklu vatni liggur oft lax á breiðunni hægra megin, svo að það er um að gera að kasta á hana líka. Á veiðikortinu er þessi staður merktur sem Hellishylur II.

Mynd / Einar Rafnsson

 

Hellishylur – # 72

Eins og ég hef nefnt má alls ekki skyggna þennan veiðistað. Það er fyrsta reglan. Aðkoman er þannig að það er best að koma niður af veginum og láta lítið fyrir sér fara. Byrja ofarlega og kasta í alla litlu straumana undir bjarginu. Þarna getur lax legið frá efsta strengnum og alveg niður á brot.

Mynd / Einar Rafnsson

 

Bjargstrengur – # 71

Einn af uppáhaldsstöðum mínum á fjallinu er Bjargstrengur. Gengið er frá bílastæðinu niður að ánni og meðfram henni að Bjargstreng. Þetta er margslunginn veiðistaður og klárlega einn af skemmtilegustu hits-stöðum Langár. Þarna getur lax legið um allt. Það þarf bara að byrja efst í honum, þar sem breiðan byrjar, og veiða niður á blábrot. Bjargstrengur er einn allra fallegasti veiðistaður Langár og að þreyta lax þar er algjör draumur.

Mynd / Einar Rafnsson
Mynd / Einar Rafnsson

Grein þessi birtist í nýjasta tímaritinu af Veiðimanninum, smellið hér til að nálgast rafræna útgáfu af Veiðimanninum.

By Árni Kristinn Skúlason Fréttir