Félagaúthlutun 2022 hefst í dag!

Í dag klukkan 18 opnum við fyrir umsóknir vegna úthlutunar veiðileyfa 2022 og er tilvalið að skoða fjölbreytt úrvalið og taka þátt. Þá birtist einnig ný söluskrá SVFR. Fátt er skemmtilegra og meira gefandi en að skella sér í veiði með góðum vinum í fallegu umhverfi.

Til að sækja um og/eða skoða söluskrána ferðu á forsíðu svfr.is eftir klukkan 18 en þar verður borði með hnappi sem kemur þér á umsóknarformið og söluskrána.

Umsóknarfrestur er til 31. desember nk. og verður enginn frekari frestur gefinn. Því er vissara að vera ekki að standa í að sækja um rétt fyrir umsóknarfrestinn. Ef það koma upp vandamál við skráningu umsóknar sendu okkur tölvupóst þess efnis á [email protected] og við munum aðstoða þig við að klára umsóknina. Úthlutun fer fram í byrjun janúar.

Eingöngu félagar í SVFR sem hafa greitt félagsgjöldin fyrir 2022 eiga rétt á að senda inn umsókn(ir). Það margborgar sig að taka þátt því að úthlutun lokinni hækka veiðileyfin um 5%.

Á dögunum bættist Miðá í hóp þeirra ársvæða sem við bjóðum félagsmönnum upp á. Við samningagerðina óskuðu landeigendur eftir því að fastir viðskiptavinir þeirra nytu fyrst um sinn forgangs í ána og ekki yrðu breytingar á veiðifyrirkomulaginu á komandi sumri. Félagið virðir þá ósk, sem þýðir að sæki veiðimaður um sama holl 2022 og hann hafði síðasta sumar þá nýtur hann forgangs. Af þeim sökum þarf ekki A,B eða C leyfi í Miðá.

Mikilvægar upplýsingar
Ekki er þörf á að skrá sig inn til að sækja um.
Ekki þarf A, B eða C leyfi fyrir umsóknir í Elliðaárnar, Langá og Miðá.
Greiða þarf þrifagjald í Andakílsá, Flekkudalsá, Gljúfurá, Haukadalsá, Laugardalsá, Miðá og Sandá. Nánari upplýsingar um verð og fyrirkomulag má nálgast á svfr.is.
Reikningar verða gefnir út í byrjun janúar og er eindagi reikninga 15 dögum eftir útgáfu. Sé óskað eftir greiðlsuksiptingu þarf það að koma fram í athugasemd á umsókninni.
Staðfestingapóstur á að berast fyrir öllum skráðum umsóknum! Pósturinn á einnig að berast á alla veiðifélaga í hópumsókn svo fremi sem tölvupóstföngin séu skráð í umsóknina.
Ruslpóstur/SPAM – athugið að það kemur fyrir að staðfestingar á umsóknum fari í ruslpósts möppuna.

Dagar til vara
Athugið vel að þegar sótt er um daga til vara, þá skal það aðeins gert ef dagar til vara eru jafn góðir þeim dögum sem sótt er um fyrir umsækjanda. Við úthlutun er reynt að raða umsóknum niður og til að lágmarka útdrætti og auka möguleika umsækjanda er góður kostur að merkja við daga til vara.

Hópumsókn
Það er nægjanlegt að senda inn eina hópumsókn en þá þarf að skrá einn félagsmann á stöng. Allir umsækjendur þurfa að vera félagar í SVFR og búnir að greiða félagsgjaldið fyrir 2022. Öflugustu umsóknirnar ganga fyrir varðandi úthlutun. Vægi umsókna margfaldast ekki þó umsækjendur í hópumsókn séu fleiri en stangafjöldi, þ.e.a.s. umsókn með sex A-umsækjendum um þrjár stangir er ekki sterkari en umsókn með þrem A-umsækjendum.

Gjafabréf SVFR – fullkomin jólagjöf
Senn líður að jólum og ekki seinna vænna að fara að huga að jólagjöf veiðifólksins. Oft er það svo að einstaklingurinn eigi bókstaflega allt sem viðkemur að veiðinni. Við hjá Stangaveiðifélaginu deyjum ekki ráðalaus enda höfum við undanfarin ár boðið upp á okkar vinsælu gjafabréf og í ár er engin undantekning.

Aldrei hefur verið jafn þægilegt að versla gjafabréf á svfr.is, þú einfaldlega skráir netfang viðtakanda ásamt þeirri dagsetningu sem þú vilt að gjafabréfið afhendist á. Með gjafabréfinu fylgir svo kóði sem hægt er að nota í vefsölunni.

Hægt er að nýta gjafabréfin í veiðileyfi og námskeið á vegum SVFR.

Kaupa gjafabréf

Hvar ætlar þú að veiða sumarið 2022?

By SVFR ritstjórn Fréttir