Árnefnd Flekkudalsár óskar eftir öflugum liðsauka á nýju ári en um er að ræða tvö laus sæti í fimm manna nefnd. Umsækjendur þurfa ekki að búa yfir neinum sérstökum hæfileikum öðrum en dugnaði og vilja til að sinna sjálfboðastarfi í þágu félagsins. Þekking á ánni er mikill kostur en alls ekki skilyrði. Mest er um vinnu í maí og byrjun júní þó vinnudagar geti vissulega komið upp á öðrum tímum.
Árnefndir SVFR eru gífurlega mikilvægur hlekkur í félagsstarfinu og sinna þróttmiklu og óeigingjörnu starfi á öllum þeim ársvæðum sem félagið hefur innan sinna banda en segja má að árnefndirnar séu eins konar umsjónaraðilar hvers ársvæðis fyrir sig. Verkefnin eru eins misjöfn og þau eru mörg en öll hafa þau það að leiðarljósi að sjá til þess að ársvæðið taki sem best á móti veiðimönnum á ári hverju.
Umsóknarfrestur er til og með fimmtudagsins 27. mars nk.