Furðufiskur gekk upp í Laugardalsá í gær, teljarinn mældi hann 62 sentimetra langan. Þessi fiskur er að öllum líkindum eldislax, við sendum myndskeiðið á Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum og hann sagði að hérna væri um eldislax um að ræða.
Hér er það sem Jóhannes hafði að segja um laxinn:
“Það er rétt hjá þér Árni að útlit þessa lax er meira en lítið grunsamlegt. Það er reyndar mögulegt að hann sé svona dökkur vegna augnskemmda samanber tengslin sem eru þar á milli varðandi stýringu litarefna. Þætti ekkert ólíklegt að augað væri ónýtt á hliðinni sem sneri frá myndavélinni miðað við það hversu illa honum gekk að hitta á teljaraopið og það auga sem sést er langt í frá frísklegt að líta. Ég myndi halda að líklegasta skýringin á skemmdum á haus fisksins væri sú að þetta væri eldislax úr sjókví . Hvítu svæðin fremst á haus og hliðum haus eru dæmigerð fyrir laxi sem runnið hefur með/nuddast hefur við netapoka sjókvíar og möguleg sjóndepra þá hjálpað til við hausskaðann á meðan þeirri dvöl stóð. Á tálknbarðsjaðrinum má sjá að hann er rofinn (slitinn) sem er dæmigert fyrir lax úr eldi sem hefur lent í aðstæðum þar með talið vegna eigin streitu sem gerir það að verkum að bakteríur vinna sig í gegnum slímuna og byrja að vinna á svæðum sem veik eru fyrir og versta sárið á hlið haussins gæti í reynd hafa verið “dýpkað” á síðari stigum af bakteríum þó ekki sé útilokað að lúsin hafi einnig náð að gæða sér á þessu svæði. Gott uggaástand skýtur svolítið skökku við (myndin er ekki nógu góð en það virtist vera að það vottaði fyrir smá kipring fremst á hliðarjaðri vinstri eyrugga) og því ekki hægt að heimfæra fiskinn á uggaástandsforsendum til eldisforsögu, en líklegasta skýringin á einkennum á haus fisksins vitnar til þess að þetta sé eldislax sem hafi sloppið úr sjókvíaeldi.”
Við biðjum veiðimenn í Laugardalsá um að drepa þennan lax ef hann veiðist og hafa samband við Jóhannes.