Dúnduropnun í Elliðaánum! Helga Steffensen útnefnd Reykvíkingur ársins

Það var við hátíðlega athöfn við veiðihús Elliðaána sem Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson tilkynnti að Reykvíkingur ársins 2019 er Helga Steffensen sem við þekkjum flest eftir framúrskarandi starf hennar með Brúðubílinn. Lilli var að sjálfsögðu með henni til halds og traust. Fjölmenni var við athöfnina og samkvæmt Jóni Leifi Óskarssyni, félagsmanni númer 88, man hann ekki eftir öðrum eins fjölda viðstaddan opnun.


Helga Steffensen, ásamt Lilla úr Brúðubílnum, var útnefnd Reykvíkingur ársins 2019.

Helga Steffensen, Reykvíkingur ársins 2019, fékk þann heiður að formlega opna ánna og var hún fljót að landa fyrsta laxi sumarsins í Sjávarfossinum með dyggri aðstoð Ásgeirs Heiðars leiðsögumanns. Eftir myndatökur og sjónvarpsviðtöl renndi Dagur B. Eggertsson, borgarstjóra maðkinum aftur í Sjávarfossinn og það tók hann aðeins örfáar mínútur að landa vænum 83 cm stórlaxi. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, var næst og það fór á sömu leið og hún landaði sínum 80 cm laxi fljótt og vel


Helga Steffensen með fyrsta laxinn úr Elliðaánum sem var 78 cm.

 


Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, með rígvænan 83 cm lax úr Sjávarfossi.

 


Formaður Stangaveiðifélagsins, Jón Þór Ólason, bauð gesti velkomna og veitti Ólafi E. Jóhannssyni,
formanni Árnefndar Elliðaánna, silfurmerki félagsins eftir frábært starf við árnar í gegnum árin.

 

.Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, fékk fallegan 88 cm stórlax.

 


Gylfi Magnússon, varaformaður stjórnar OR, með 89 cm lax sem hann var að landa rétt í þessu (kl.10.00)

 


Þórdís Lóa með 80 cm lax úr Sjávarfossi.

Um klukkan 10.30 var búið að landa a.m.k. 7 löxum og má því segja að laxveiðin fari vel af stað í ár í Elliðaánum. Góðu fréttirnar eru að flestir fiskarnir eru stórlaxar upp í 89 cm!

Laxveiðin byrjar því með látum og veiðimenn sem eiga leyfi í ánum á næstu dögum geta farið að hlakka til.

 

Með veiðikveðju,

 

Skrifstofa SVFR

By admin Fréttir