Breytingar á veiðisvæðum fyrir árið 2018

Eins og glöggir félagsmenn hafa eflaust tekið eftir þá er Söluskráin 2018 komin á vefinn og umsóknarvefurinn kominn í loftið. Við höfum fengið ábendingar um smávægilegar villur í Söluskrá sem við erum að vinna í að laga áður en hún fer í prentun og verður dreift með Veiðimanninum sem er nú í vinnslu. Það er aðeins um breytingar á veiðisvæðunum okkar fyrir næsta ár en nánar má lesa um þær helstu hér fyrir neðan:

Fáskrúð

Því miður er þessi magnaða á ekki lengur innan SVFR en jörðin sem á helming veiðiréttarins var seld nú nýlega. Nýr eigandi framlengdi ekki samningi við SVFR. Við sjáum á eftir ánni og vonum að með tíð og tíma getum við aftur boðið félagsmönnum upp á veiðileyfi í ánni.

Staðartorfa

Fyrir árið 2017 létum við Staðartorfu fylgja með Laxárdalnum en fyrir sumarið 2018 ætlum við að ekki að gera það heldur selja Staðartorfu sér. Svæðið er í forsölu og geta því allir félagsmenn sótt um allt tímabilið með því að senda tölvupóst á [email protected]

Bíldsfell, Alviðra, Þrastarlundur 

Undanfarin 2 ár hafa verið erfið í Soginu og ljóst er að aðgerða er þörf. Við erum, ásamt fleiri hagsmunaðilum á svæðinu, að vinna í aðgerðaáætlun með það að markmiði að snúa þessari þróun við. Okkar fyrsta skref er að reyna að hámarka hrygningu í ánni og verður því skylt að sleppa öllum laxi aftur á svæðinu sumarið 2018. Áfram verður leyft að veiða á bæði flugu og spún samt sem áður.

Einnig munum við bjóða upp á 2 daga holl um helgar þar sem það á við í Bíldsfelli og er það gert til koma til móts við þá sem óska eftir því að vera í 2 daga samfellt á svæðinu.

Grjótá / Tálmi – Hítará ofan Kattafoss

Fyrir sumarið 2018 verður sú breyting á að frá og með 7. september verða þessi tvö svæði seld saman sem 4 stanga eining í tveggja daga hollum. Veiðimenn geta þá nýtt veiðihúsið við Grjótá/Tálma en þar eru 4 svefnherbergi. Sú breyting verður einnig gerð að eingöngu verður leyft að veiða á flugu frá 7. september og út veiðitímann og öllum laxi skal sleppt aftur. Þarna eru mikilvæg hryngingasvæði fyrir Hítará og það er mikilvægt að vernda laxinn þarna þegar komið er fram á þennan tíma. Heildarstangarverð verður lækkað að sama skapi.

Eldvatnsbotnar

Hollaröðun verður með aðeins breyttu sniði en fyrir sumarið 2018 verða seld helgarholl frá fimmtudegi til sunnudags, svo frá sunnudegi til þriðjudags og þriðjudegi til fimmtudags.

Andakílsá

Ekki verður veitt í Andakílsá sumarið 2018 frekar en sumarið 2017. Við bíðum róleg eftir ráðleggingum fiskifræðinga og erum full bjartsýni um að hægt verði að veiða í ánni innan fárra ára.

Hjaltadalsá / Kolka

Er ekki lengur í boði fyrir félagsmenn. Áin hefur verið í umboðssölu hjá félaginu en verður það ekki áfram.

Straumfjarðará

Er nýtt veiðisvæði hjá SVFR. Ein af betri laxveiðiám landsins, steinsnar frá Reykjavík (150 km) og veitt á 4 stangir. Við erum glimrandi ánægð með að geta boðið upp á þessa perlu.

Úlfarsá / Korpa

Nýtt veiðisvæði fyrir sumarið 2017 en þar sem við gengum frá samningu um ána svo seint í vor þá náðist ekki að setja hana í úthlutun til félagsmanna í fyrra. Nú er allt tímabilið til úthlutunar til félagsmanna SVFR.

By admin Fréttir