Breytingar á veiðifyrirkomulagi í Elliðaánum 2020 

Breytingar á veiðifyrirkomulagi í Elliðaánum 2020 

Kæri félagi í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Nýverið voru niðurstöður rannsóknar á laxastofni Elliðaánna kynntar fyrir stjórn SVFR.  Fiskifræðingar Hafrannsóknarstofnunar rannsökuðu vöxt og viðgang stofnsins, þróun yfir áratuga langt tímabil, fjölda gönguseiða, veiðihlutfall o.fl.  Ástæða þess að ráðist var í rannsóknina voru hugmyndir um að gangsetja gömlu rafstöðina í Dalnum, sem gæti haft áhrif á vatnafar og þar með lífríkið í ánum.

Niðurstöður vísindamannanna kalla á aðgerðir sem hafa það að markmiði að vernda laxastofn Elliðaánna enn frekar. Hrygningarstofn Elliðaánna hefur farið minnkandi og langoftast verið undir undir meðaltali frá því 1990. Engin teikn eru á lofti um að sú þróun breytist nema gripið sé til aðgerða. Elliðaárnar eru frjósamar ár og það þarf stóran hrygningarstofn til þess að nýta framleiðslugetu ánna á hverjum tíma. Minnkandi fjöldi gönguseiða og lækkandi endurheimtur þýða því minni göngu og minni veiði. Staðreyndin er einfaldlega sú að hrygningarstofninn hefur verið of lítill að hausti til að unnt hafi verið að byggja upp stofninn og snúa við þessari óheillaþróun.

Engin einföld skýring er á þessari þróun en ljóst má vera að þar spila líkast til margir þættir saman. Meðal þeirra skýringa sem nefndar hafa verið eru að umferð hafi aukist við árnar, byggð hefur færst nær ánum, mannvirkjum á ársvæðinu hefur fjölgað og enn mætti tína til skipulagsmál og ljósmengun. Sumir telja aukinni umferð við árnar um að kenna, þróun byggðar, rennslisbreytingar vegna virkjunar, vatnstöku, landfyllingar, skipulagsmál, ljósmengun svo fátt eitt sé nefnt. Aðrir benda á hrunið sem varð í ánni þegar kýlaveiki kom upp í henni um miðjan 10. áratug síðustu aldar, enda sýna gögn að stofninn hefur ekki náð sér á strik eftir það áfall. Þess fyrir utan eru það ýmis umhverfisskilyrði sem hafa þar einnig áhrif, eins og vatnshiti og lífsskilyrði í sjó. Þá verður ekki litið framhjá því, að veiðihlutfallið í ánum hefur farið hækkandi og mikill meirihluti veiddra laxa hefur verið drepinn. Slíkt skiptir því meira máli sem stofninn er minni. Hlutfall slepptra laxa í Elliðaánum hefur auk þess verið lægri en gerist í flestum laxveiðiám á síðustu árum.

Elliðaárnar hafa verið heimavöllur Stangaveiðifélags Reykjavíkur frá stofnun þess. Félagið var m.a. stofnað í þeim tilgangi til að standa vörð um árnar, vernda og tryggja viðgang fiskstofna í þeim. Markmið SVFR var sannarlega líka að efla hróður stangaveiðinnar, hvetja til hófsemi í veiði og stuðla að því að veiðimenn virði settar veiðireglur og umgangist náttúruna af virðingu og tillitssemi. Það höfum við gert með stolti í 80 ár.

Með hliðsjón af framangreindu má vera ljóst að SVFR getur ekki setið hjá þegar hætta steðjar að hinum einstaka laxastofni Elliðaánna. Það er ljóst að SVFR hefur ekki stjórn á mikilvægum áhrifaþáttum að þessu tilliti, hvorki umferð um Dalinn, skipulagsmálum né náttúrulegum sveiflum og áföllum í lífríkinu. Hins vegar getur SVFR lagt sitt af mörkum með því að minnka veiðiálagið í ánum og það hefur stjórn félagsins ákveðið að gera. Veiðifyrirkomulagi í Elliðaánum verður því breytt, frá og með næsta sumri.

Það er stór ákvörðun að breyta hátt í aldargamalli veiðihefð og því hefur sú ákvörðun verið tekinn af vel ígrunduðu máli, þar sem stjórnin naut liðsinnis árnefndar Elliðaánna, vísindamanna og ráðfærði sig við fulltrúaráð félagsins. Með hliðsjón af núverandi stöðu laxastofns Elliðaánna og þeim vísindalegu ráðleggingum sem stjórn félagsins hefur aflað hefur verið tekin sú ákvörðun að sleppa skuli öllum veiddum laxi. Frá og með næsta sumri verður því einungis heimilt að veiða á flugu í Elliðaánum og öllum fiski skal sleppt.  Með því sýnir félagið ábyrgð og stendur með náttúrunni, á 80 ára afmæli félagsins. Stjórn félagsins er samstíga í þessu mikilvæga máli, er sannfærð um nauðsyn þessarar ákvörðunar og lítur svo á, að með henni fái Elliðaárnar sjálfar sig í afmælisgjöf.

Margir munu fagna þessari breytingu, en aðrir telja of langt gengið. Róttækar breytingar kalla eðli málsins samkvæmt á viðbrögð þar sem skoðanir eru skiptar. Hins vegar er þessi ákvörðun tekin með hagsmuni ánna í huga sem og framtíðarhagsmuni félagsins. Við viljum stuðla að því að komandi kynslóðir fá ennfremur að upplifa þá einstöku upplifun sem það er að veiða á bökkum Elliðaánna. Stjórn félagsins treystir því að félagsmenn sýni þessari ákvörðun skilning og standi saman að því að vernda heimavöll félagsins. Megi laxinn í Elliðaánum lifa!

 

Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur, 

Jón Þór Ólason
Rögnvaldur Örn Jónsson
Ágústa Katrín Guðmundsdóttir
Hrannar Pétursson
Hörður Birgir Hafsteinsson
Ólafur Finnbogason
Ragnheiður Thorsteinsson

 

———-

Til áréttingar hefur SVFR tekið saman nokkrar spurningar og svör, sem kunna að brenna á félagsmönnum.  Hafir þú spurningar þá vinsamlega sendu þær á [email protected] og við gerum okkar besta við að veita svör.

Hefði ekki mátt grípa til mildari aðgerða? 

Með hliðsjón af samráði okkar við okkar færustu vísindamenn má ljóst vera að raunveruleg hætta hafi verið til staðar að Elliðaánum hafi hnignað enn frekar. Félagið skoðaði ýmsar útfærslur en taldi þær ekki líklegar til árangurs. Minnkun á kvóta úr 2 löxum á stangarvakt í 1 hefði t.d. engu breytt, þar sem meðalveiði á stangarvakt hefur verið undir 1 laxi undanfarin ár og var 0,6 laxar á stöng síðastliðið sumar. Minnkun maðkasvæðis eða maðkveiðitíma hefði heldur ekki dugað, því staða stofnsins er orðin of veik. Að mati vísindamanna þarf 1.000 hrygnur að hausti í ánum til að nýta framleiðslugetu ánna á hverjum tíma, sem er langt umfram raunfjölda undanfarin ár.

Eiga maðkveiðimenn samleið með SVFR? 

Allir veiðimenn eiga samleið með SVFR, svo fremi sem þeir sýna ábyrgð og umgangast náttúruna af virðingu. Margir maðkveiðimenn hafa stundað Elliðaárnar og sótt sér fisk í soðið, t.d. í Sjávarfossi. Þeim stendur að sjálfsögðu til boða að veiða á flugu í ánum og njóta leiðsagnar okkar bestu manna ef þeir kjósa, en einnig býðst félagsmönnum maðkveiði í Gljúfurá, Korpu og Leirvogsá, sem er komin í umsjá SVFR að nýju.

 Verður áfram efnt til barna- og unglingadaga við Elliðáárnar?

Svo sannarlega, enda er barna- og unglingastarf félagsins afar mikilvægt í starfsemi félagsins. Á barnadögum á liðnu sumri var stór hluti (og líklega meirihluti) barnanna eingöngu að veiða á flugu. Sum voru að kasta flugu í fyrsta sinn, en virtust hafa tæknina í blóðinu.  SVFR mun því áfram leggja rækt við barna- og unglingastarfið, efla það enn frekar og taka þannig þátt í því að ala upp fluguveiðimenn framtíðarinnar.

 

 

By admin Fréttir