Breytingar á skrifstofu SVFR

Árni Kristinn Skúlason hefur lokið störfum á skrifstofu SVFR og um leið og við óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi viljum við þakka honum fyrir vel unnin störf.  Margir eiga eflaust eftir að sakna þess að leita í hans smiðju.

Einnig viljum við nota tækifærið og kynna til leiks nýjan starfsmann, Hjörleif Steinarsson, en hann mun hefja störf á nýju ári og bjóðum við hann velkominn á skrifstofuna!

Hjörleifur er enginn aukvisi þegar kemur að stangveiði en hann hefur komið að veiðiskap frá öllum hliðum. Bakterían byrjaði þegar hann var 4-5 ára gamall í Þingvallavatni með föður sínum. Sem barn bjó hann um tíma í Vestmannaeyjum og stundaði þá bæði bryggjuveiði sem og úteyjarveiði á fuglum.

Lax- og silungsveiðar hafa samt átt hug hans allan síðustu ár. Hann hefur m.a. starfað í veiðiverslun og leiðsagt veiðimönnum hjá SVFR í Laxárdal og Mývatnssveit, auk þess að hafa verið með fluguhnýtinga- og kastnámskeið. Hjörleifur var um tíma í SVFK og kom þar að ýmsum félagsstörfum. Var m.a. í árnefnd og hélt utan um hnýtinga- og kastnámskeið.

Hjörleifur er kvæntur Katrínu Brynjarsdóttur, Austfirðingi og veiðikonu, en þau veiða mikið saman.

Skilaboð Hjörleifs til félagsmanna eru eftirfarandi:
„Ég er mjög stoltur af því að SVFR hafi valið mig til starfa. Ég mun kappkosta við að aðstoða félagsmenn í því að þeirra upplifun í veiði á vegum félagsins verði sem best. Verðum í sambandi kæru félagar!“

Með kveðju,

Skrifstofa SVFR

By Ingimundur Bergsson Fréttir