Barna og unglingastarf SVFR með veiðidaga

Vorveiði barna- og unglingastarfsins

 

Það var heldur betur líf og fjör um síðustu helgi í vorveiði Barna-og unglingastarfsins í Leirvogsá og Korpu. Mættir voru ungir og efnilegir veiðimenn sem sveifluðu rykinu af stöngunum sínum eftir langa vetrarlegu. Jákvæðnin og gleðin var við völd og flestir að veiða árnar í fyrsta skipti. Veðrið var með besta móti, logn og blíða þó aðeins hafi reynt á veiðimenn  seinni hluta sunnudagsins við Korpu en þá mætti íslenskt vorveður á heimsmælikvarða (slydda, rigning, snjókoma og rok).

Laugardagurinn byrjaði vel í Leirvogsá og í fyrsta rennsli kom á land sjóbirtingur í Neðri Skrauta. Byrjunin lofaði góðu en það þurfti þó að bíða eftir næsta fiski á land. Veiðimenn sýndu mikil tilþrif og buðu íbúum Leirvogsár upp á fjölbreytt úrval af flugum og þrátt fyrir það þá komu ekki fleiri á land en þessir tveir.

Haldið var í Korpu á sunnudeginum og þar var aðeins meira líf. Dagurinn byrjaði rólega en það var ansi svalt þennan sunnudagsmorgun. En þegar leið á daginn fór að kvikna líf og fiskur fór að sýna sig. Veiðimenn fóru vítt og breitt um Korpu og var mesta lífið við stífluna og fyrir ofan hana. Það var sannkölluð hoplaxa veisla í stíflunni þennan dag og alls urðu þeir 10 talsins. Ekki náðist sjóbirtingur á land en tveimur flottum urriðum var landað í Stokkunum.

Frábær veiðihelgi að baki og fóru allir ungu veiðimennirnir heim sáttir og glaðir.

 

Hér má sjá myndaseríu af ungum og glöðum framtíðarveiðimönnum

 

By Hjörleifur Steinarsson Fréttir