Skemmtilegustu veiðidagar sumarsins í Elliðaánum eru án efa barna- og unglingadagar sem haldnir eru tvisvar yfir tímabilið, sá fyrri í júlí og seinni í ágúst. Þessi árlegi viðburður nýtur ætíð mikilla vinsælda og komast gjarnan færri að en vilja. Árið í ár var engin undanteking en tekið var á móti hátt í 70 börnum dagana tvo þar sem veitt var bæði fyrir og eftir hádegi.
Það var bæði gleði og spenna í loftinu þann 11. ágúst síðastliðinn, er seinni dagurinn fór fram, þegar 32 glæsilegir ungir veiðimenn mættu til leiks tilbúnir að takast á við móður náttúru og láta ljós sitt skína. Aðstæður til veiða voru frábærar, veðrið lék við þátttakendur og ekki var hægt að kvarta yfir sjálfri veiðinni en í heildina komu 15 laxar á land, þar af tveir maríulaxar. Venju samkvæmt var slegið upp grillveislu að veiði lokinni, þar sem farið var yfir ævintýri dagsins, og fóru allir saddir og sáttir heim.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur vill koma sérstökum þökkum til Mikaels Marinó Rivera, og annarra sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóg, fyrir frábært skipulag og gott utanumhald en án þeirra yrði viðburður sem þessi ekki að veruleika.