Hin árlega hreinsun Elliðaánna fer fram næstkomandi þriðjudag, 13. júní og hefst verkefnið á því að viljugir félagsmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og aðrir velunnarar Elliðaánna mæta í veiðihúsið í Elliðaárdal klukkan 17.00 þennan dag. Gert er ráð fyrir að hreinsun verði lokið um kl. 20.00, en þá verður boðið upp á létta hressingu við veiðihúsið fyrir þá sem vilja.
Við veiðihúsið sem flestir kannast við, verður verkefnum útdeilt og mönnum og konum verða falin hreinsun á tilteknum hlutum Elliðaánna, en víða er að finna rusl og annan óþrifnað í og með ánum og er verkefni dagsins að gera umhverfi ánna eins snyrtilegt og kostur er og SVFR til sóma í hvívetna.
Undanfarin ár hafa margir hlýtt kalli SVFR um að leggja gjörva hönd á plóg við þetta tækifæri og hafa ekki séð eftir því. Enda er það almannarómur að þeir sem taka þátt í þessu átaki hafi ekki borið skarðan hlut frá borði í veiði í Elliðaánum í framhaldinu, enda eru það staðkunnugir menn sem fara fyrir hreinsunarflokkunum og miðla gjarnan af visku sinni og reynslu við þetta tækifæri.
Öllum er frjálst að leggja hönd á plóginn og eru þátttakendur beðnir um að mæta við veiðihús Elliðaánna kl. 17.00 þriðjudaginn 13. júní nk. Þar verður skipt liði og fólki skipað til verka og áin og næsta umhverfi hennar hreinsað af rusli og öðrum óþrifnaði. Þátttakendur eru hvattir til þess að vera í klofstígvélum eða vöðlum, þar sem hirða þarf rusl úr árfarveginum – og jafnframt að vera klæddir í samræmi við veður að öðru leyti.
Stangaveiðifélag Reykjavíkur hvetur félagsmenn sína sem og aðra velunnara Elliðaánna til þátttöku í hreinsunarátakinu.