Undirbúningur er hafinn fyrir aðalfund SVFR, sem haldinn verður fimmtudaginn 29. febrúar klukkan 18:00 í Akoges salnum, Lágmúla 4 í Reykjavík. Á fundinum verður kosinn formaður til eins árs, þrír stjórnarmenn til tveggja ára og fimm fulltrúaráðsmenn til tveggja ára. Framboð skulu berast skrifstofu SVFR eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund (15. febrúar), með skriflegum hætti eins og tilgreint er í lögum félagsins. Mælst er til þess að frambjóðendur skrái framboð sitt á svfr.is/frambod.
–
Stjórn hefur skipað þriggja manna kjörnefnd, sem mun annast undirbúning og framkvæmd kosninga til stjórnar og fulltrúaráðs. Kjörnefnd úrskurðar um lögmæti framboða og skal birta nöfn frambjóðenda á heimasíðu SVFR eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Samhliða mun kjörnefndin kynna nánari reglur um kjörgögn og fyrirkomulag kosninganna.
–
Ársreikningur félagsins er tilbúinn og er hann til sýnis félagsmönnum á skrifstofu félagsins að Suðurlandsbraut 54. Síðasta rekstrarár var gott fyrir félagið og skilaði félagið hagnaði upp á rúmlega 40 milljónir. Þrátt fyrir að það sé ekki markmið félagsins að sýna góða hagnað þá má það fyrst og fremst rekja til mikillar eftirspurnar veiðileyfa og sölu umfram væntingar auk þess sem fjölgun félagsmanna hefur mikil áhrif. Nú má segja að félagið sé búin að vinna sig út úr vandanum sem skapaðist eftir hrun þegar eigið fé félagsins var orðið neikvætt. Eigið fé félagsins er í dag orðið ríflega 130 milljónir og félagið komið í sitt eigið húsnæði að Suðurlandsbraut 54.
Með kveðju,
Stjórn SVFR