Aðalfundur SVFR verður haldinn 27. febrúar

Undirbúningur er hafinn fyrir aðalfund SVFR, sem haldinn verður fimmtudaginn 27. febrúar klukkan 18:00 í Akoges salnum, Lágmúla 4 í Reykjavík. Á fundinum verður kosinn formaður til eins árs, þrír stjórnarmenn til tveggja ára og fimm fulltrúaráðsmenn til tveggja ára. Framboð skulu berast skrifstofu SVFR eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund (13. febrúar), með skriflegum hætti eins og tilgreint er í lögum félagsins. Mælst er til þess að frambjóðendur skrái framboð sitt á svfr.is/frambod.
Stjórn hefur skipað þriggja manna kjörnefnd, sem mun annast undirbúning og framkvæmd kosninga til stjórnar og fulltrúaráðs. Kjörnefnd úrskurðar um lögmæti framboða og skal birta nöfn frambjóðenda á heimasíðu SVFR eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Samhliða mun kjörnefndin kynna nánari reglur um kjörgögn og fyrirkomulag kosninganna.
Ársreikningur SVFR er tilbúinn og er hann til sýnis félagsmönnum á skrifstofu félagsins að Suðurlandsbraut 54. Í ársreikningi kemur meðal annars fram að hagnaður félagsins á síðasta rekstrarári nam ríflega 10 milljónum króna.
Síðastliðið rekstrarár var félaginu nokkuð hagstætt og var nýting á svæðum þess á heildina litið góð. Félagið rak veiðihúsin fyrir norðan í eigin nafni en úthýsti rekstri húsanna við Langá og Haukadalsá. Talsverður kostnaður fylgdi breytingum á herbergjum í Langá og standsetningu nýrrar skrifstofu, sem dró úr hagnaði þar sem þær voru gjaldfærðar að fullu. Þá hefur verulegur kostnaður hlotist vegna máls sem tengist leyfisveitingum Ferðamálastofu.
Aðalfundur SVFR verður haldin 27. febrúar í Akóges-salnum í Lágmúla kl. 18:00
Ragnheiður Thorsteinsson, sem verið hefur formaður SVFR síðustu tvö ár, hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram til formennsku á aðalfundi.
Sitjandi stjórnarmeðlimir, Brynja Gunnarsdóttir, Dögg Hjaltalín og Helga Jónsdóttir hafa gefið kost á sér til endurkjörs á aðalfundinum.
Með kveðju,
Stjórn SVFR
By Ingimundur Bergsson Fréttir