Aðalfundur 2022 – framboð

Fresti til framboðs 2022 lauk á miðnætti á mánudaginn var, þessi framboð bárust. Framboðunum er raðað í stafrófsröð eftir því embætti sem sóst er eftir og síðan nafni.

Displaying 1 - 5 of 5

Formaður stjórnar

Jón Þór Ólason

Ég vil halda áfram að vinna fyrir SVFR og leggja mitt af mörkum að viðhalda glæstri sögu félagsins.

Meðstjórnandi

Aðalheiður St Eiríksdóttir

Vön að stjórna og harð dugleg. Hef lengi unnið við fjármál, fjarmálastjórnun, uppgjör og lánamál. Er að aðstoða mörg fyrirtæki í dag bæði í gegnum fjársýsluna og sveitarfélög.

Meðstjórnandi

Halldór Jörgensson

Býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn félagsins.

Meðstjórnandi

Hrannar Pétursson

METAFKOMA HJÁ ÖFLUGU FÉLAGI

Ég hef setið í stjórn SVFR undanfarin fjögur ár og er stoltur af þeim árangri sem félagið hefur náð á þeim tíma, stundum í miklum mótbyr. Á þessum tíma höfum við tekist á við þurrka og heimsfaraldur, komist yfir ný ársvæði og endurnýjað eldri samninga, breytt verklagi og ferlum innan félagsins, eflt samskipti við landeigendur og fjölgað félagsmönnum í SVFR. Við höfum gert ýmsar breytingar í því augnamiði að styrkja stofnana í ánum okkar, bæta þjónustu við veiðimenn og tryggja rekstur félagsins. Það síðastnefnda hefur heldur betur tekist, því metafkoma var af rekstri félagsins á síðasta rekstrarári eftir mikla varnarbaráttu um árabil. Það er í sjálfu sér ekki markmið að reka SVFR með miklum hagnaði, en sterkari fjárhagsstaða styrkir félagið og gerir því betur kleift að reka öflugt félagsstarf. Þá er rétt að nefna, að með breyttum áherslum í samningagerð hefur dregið verulega úr áhættu SVFR af rekstri veiðisvæða og hagsmunir landeigenda og félagsins spyrtir saman til hagsbóta fyrir báða aðila.

Á næstu tveimur árum vil ég byggja á þeim frábæra árangri sem náðst hefur á undanförnum árum, efla félagið enn frekar og tryggja félagsmönnum aðgang að enn fjölbreyttari veiðisvæðum. Mig langar að auka hróður silungsveiði, komast yfir öflugt sjóbirtingssvæði og mæta ólíkum þörfum félagsmanna fyrir fræðslu og félagslíf. Ég heiti því að leggja mig allan fram í þágu félagsins, hér eftir sem hingað til.

Meðstjórnandi

Trausti Hafliðason

Snúið úr vörn í sókn

Trausti Hafliðason býður sig fram til áframhaldandi setu í stjórn félagsins.

Ég hef setið í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) undanfarin tvö ár og hefur sá tími verið krefjandi en um leið gefandi og lærdómsríkur og þess vegna vil ég gefa kost á mér aftur.
Stjórn SVFR og skrifstofa hefur að mínu viti náð eftirtektarverðum árangri í að bæta rekstur félagsins. Endurspeglast það meðal annars í því að á síðasta rekstrarári skilaði félagið 44 milljóna króna hagnaði og nemur eigið fé nú 45 milljónum. Er þetta mikill viðsnúningur. Búið er að treysta rekstrargrundvöll félagsins svo um munar og snúa úr vörn í sókn.

Á síðustu misserum hefur stjórn félagsins lagt sig fram um að auka framboð til félagsmanna. Í því sambandi má nefna nýlega samninga um leigu á Sandá, Flekkudalsá og Miðá í Dölum. Þessar ár eru kærkomin viðbót fyrir félagsmenn enda þriggja og fjögurra stanga ár í sjálfsmennsku, sem er einmitt það sem félagsmenn hafa kallað eftir.

Sem betur fer er mikil gróska í stangaveiðinni á meðal unga fólksins. Vinsældir silungsveiðinnar hafa ekki verið framhjá neinum. Í þeim efnum má SVFR ekki sitja eftir og er núverandi stjórnin mjög meðvituð um það. Félagið er nú þegar með margar silungsveiðiár á sínum snærum og ber þar helst að nefna Laxá í Mývatnssveit og Laxá í Laxárdal en einnig ár eins og Efri-Flókadalsá, Varmá og Gufudalsá að ógleymdum öllum vötnunum í Veiðikortinu. Þá egna margir fyrir silungi í vorveiðinni í Elliðaánum. Hljóti ég brautargengi í kosningunum mun ég leggja mitt af mörkum svo enn betur sé hægt að koma til móts við silungsveiðimenn.

Örfá orð um sjálfan mig. Í gegnum árin hef ég verið virkur í félagsstarfi Stangaveiðifélagsins. Ég hef setið í árnefnd Langár á Mýrum og í ritnefnd Veiðimannsins. Fyrir utan veiðina þá starfa ég dag í sem ritstjóri Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áður starfaði ég um árabil sem fréttastjóri á Fréttablaðinu, var ritstjóri Blaðsins um tíma og blaðamaður á Morgunblaðinu. Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í blaðamennsku frá University of Arizona. Í dag sit ég í stjórn Blaðamannafélags Íslands og hef gert í 8 ár en í vor hyggst ég hætta stjórnarstörfum þar. Ég hef því þónokkra reynslu af stjórnarstörfum og á mjög auðvelt með að vinna með fólki. Ég er fæddur í Reykjavík árið 1973 og alinn upp í Mosfellssveit og í Breiðholti. Eiginkona mín er Kristín Gísladóttir þroskaþjálfi, sem er einnig með veiðibakteríuna. Eigum við tvö börn.

Að lokum. Stangaveiðifélag Reykjavíkur á streng í hjarta mínu enda stangaveiði mitt helsta áhugamál. Félagið á sér mjög merka sögu. Í gegnum árin hefur það beitt sér með ýmsum hætti í þágu stangaveiðinnar en merkasta hlutverk þess og megintilgangur er að mínu mati að vinna fyrir félagsmenn sína — áhugafólk um stangaveiði.

Veiðikveðjur,
Trausti Hafliðason

 

 

By SVFR ritstjórn Fréttir