Fyrirkomulag kosninga í aðdraganda aðalfundar verður með óvenjulegu sniði þetta árið. Fyrirkomulagið er í takt við það óhefðbunda ástand sem ríkt hefur í þjóðfélaginu öllu, en eins og allir vita er nú í gildi reglugerð stjórnvalda sem m.a. takmarkar eða bannar fjöldasamkomur og -fundi. Hömlurnar eru settar til að takmarka útbreiðslu COVID-19, í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis. Þá er aukinheldur ljóst að ýmsir félagsmenn SVFR kjósa að halda sig fjarri mannamótum vegna faraldursins, en vildu samt sem áður eiga kost á því að nýta atkvæðisrétt sinn á aðalfundi SVFR eða í aðdraganda hans.
Af augljósum ástæðum eru uppi ákveðin neyðarréttarsjónarmið (force majure) sem hafa gert það að verkum að félög og fyrirtæki hafa neyðst til þess að taka upp nýtt fyrirkomulag á sínum aðalfundum og jafnvel hafa þá rafræna með öllu. Í 6. gr. laga SVFR er m.a. getið um það, að stjórn félagsins geti gefið út nánari reglur um kjörgögn og fyrirkomulag kosninga og skuli kynna það á heimasíðu félagsins tíu dögum fyrir aðalfund.
Á aðalfundi SVFR árið 2020 var samþykkt að breyta lögum félagsins og gera rafrænar kosningar til stjórnar heimilar. Stjórn SVFR hefur ákveðið að nýta þetta nýja ákvæði og bjóða félagsmönnum að kjósa fólk til trúnaðarstarfa í rafrænni kosningu í aðdraganda aðalfundarins. Stjórn SVFR áréttar, að fyrirkomulagið sé ekki einvörðungu sótt til þeirrar lagabreytingar sem vísað er til, heldur sé ákvörðun ennfremur tekin á grundvelli framangreindrar 6. gr. laga félagsins sem og jafnframt á neyðarréttarsjónarmiðum sem rekja megi til hins fordæmalausa ástands sem uppi hefur verið í íslensku samfélagi og áður er rakið. Með þessum hætti er hins vegar unnt að tryggja að sem flestir félagsmenn geti neytt atkvæðisréttar síns á þessum sérkennilegu tímum.
Rafræn kosning til stjórnar kemur í stað hefðbundinnar utankjörfundaratkvæðagreiðslu og hefst hún mánudaginn 22. febrúar og lýkur miðvikudaginn 24. febrúar kl. 16. Kosið verður til stjórnar og fulltrúaráðs á aðalfundinum. Nánari upplýsingar um framkvæmd og leiðbeiningar verða sendar til félagsmanna síðar í vikunni. Þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöldin 2021 fyrir miðnætti sunnudaginn 21. febrúar nk. geta tekið þátt í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni.
Þá eru félagsmenn eru hvattir til að skrá sig á fundinn svo áætla megi fjölda fundargesta fyrirfram og tryggja að framkvæmd fundarins verði í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur. Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 21. febrúar nk.
Athugið!
Frestur til að greiða félagsgjöld og öðlast kjörgengi ásamt skráningu á aðalfund 2021 er til miðnættis sunnud. 21. febrúar nk.
Kosið er um þrjú sæti í stjórn og fimm sæti í fulltrúaráð, sjá fyrri frétt um hverjir eru í framboði Framboð 2021