Aðalfundur 2021 – Dagskrá

Kæru félagar

Það styttist í aðalfund félagsins sem er á dagskrá í næstu viku, fimmtudaginn 25. febrúar. Áætlað er að fundurinn hefjist kl. 18:00 en nánara fyrirkomulag og framkvæmd fundarins ásamt utankjörfundaratkvæðagreiðslu verður kynnt síðar í vikunni. Fundurinn fer fram í Akóges salnum Lágmúla 4.

Dagskrá aðalfundarins er sem hér segir:
1. Formaður setur fundinn
2. Formaður minnist látinna félaga
3. Formaður tilnefnir fundarstjóra
4. Fundarstjóri skipar tvo fundarritara
5. Inntaka nýrra félaga
6. Formaður flytur skýrslu stjórnar
7. Gjaldkeri les upp reikninga
8. Framkvæmdastjóri kynnir rekstraráætlun 2020 – 2021
9. Umræður um skýrslu og reikninga
10. Reikningar bornir undir atkvæði
11. Gjaldkeri ber fram tillögu um inntöku- og árgjöld
12. Kynning og kosning frambjóðenda í stjórnarkjöri
13. Kaffihlé (mögulega sleppt)
14. Kosning þriggja stjórnarmanna
15. Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara til eins árs
16. Kynning og kosning á fimm mönnum í fulltrúaráð til tveggja ára
17. Lagabreytingartillögur
18. Önnur mál
19. Formaður flytur lokaorð
20. Fundastjóri slítur fundi

Eftirfarandi lagabreytingartillögur bárust og verða lagðar fyrir á aðalfundi:

Við 7.gr. bætist ný málsgrein og verði að annari málsgrein greinarinnar.

Skoðunarmenn skulu hafa reynslu af bókhaldi og reikningsskilum. Þeir skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi. Almenn óhæðisskilyrði um endurskoðendur, skulu eiga við um skoðunarmenn. Skoðunarmenn skulu hvorki sitja í stjórn félagsins né gegna öðrum stjórnunarstörfum fyrir það.

Við 10.gr. bætist við ný málsgrein (aftast), og heiti greinarinnar breytist jafnframt í

„10.gr. – Verkefni stjórnar, starfsfólks, nefnda og skoðunarmanna reikninga“

Skoðunarmenn reikninga skulu framkvæma innra eftirlit með rekstri félagsins. Í því felst m.a. árleg yfirferð á viðskiptum stjórnenda og tengdra aðila við félagið, umbun stjórnar, risnu sem og aðra þætti, sér í lagi félagslega þætti, sem skoðunarmenn telja viðeigandi hverju sinni. Niðurstöður slíkrar könnunar skulu birtar árlega með ársreikningum félagsins á aðalfundi. Skoðunarmenn skulu hafa aðgang að öllum þeim gögnum þ.m.t. bókhaldsgögnum sem þeir telja nauðsynlegan starfa sinna vegna.

 

By SVFR ritstjórn Fréttir