Það verður glatt á hjalla í Akóges salnum 4. desember!

Þann 4. desember næstkomandi mun Stangaveiðifélagið Reykjavíkur standa fyrir tveimur viðburðum í Akóges salnum Lágmúla 4.

Sá fyrri fer fram milli klukkan 17-19 en þá bjóðum við heldri félagsmönnum, 67 ára og eldri, í sérstakt heiðurskaffi. Að því loknu, eða klukkan 19:00, hefst svo opið hús þar sem jólagleðin verður í fyrirrúmi og eru allir velkomnir óháð því hvort þeir séu í félaginu eða ekki.

Úr nógu verður að taka og ber þar helst að nefna kynningu á nýjasta ársvæði félagsins, Vatnsdalsá í Vatnsfirði, sem við vitum að margir eru farnir að bíða óþreygjufullir eftir. Þá liggur fyrir að sumir verða heppnari en aðrir þetta kvöld því jólahappahylurinn verður á sínum stað! Enginn ætti þó að þurfa að fara tómhentur heim því hægt verður að gera góð kaup á alls konar fínerí í jólapakka veiðikvenna og manna. Að vanda verður hægt að svala þorsta sínum á barnum en heyrst hefur að jólaglöggið muni spila þar stórt hlutverk.

En rúsínan í pylsuendanum verður án efa þegar goðsögnin sjálf, Árni Baldursson, mætir á svæðið og les upp úr nýútkominni bók sinni “Í veiði með Árna Bald”.

Endilega takið kvöldið frá og merkið það í dagatalið – við hlökkum til að sjá ykkur!

By Eva María Grétarsdóttir Fréttir