Sækjum fram

Trausti Hafliðason býður sig fram til áframhaldandi setu í stjórn félagsins.

Ég hef setið í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) undanfarin fjögur ár. Sá tími hefur verið krefjandi en um leið gefandi og lærdómsríkur og þess vegna vil ég gefa kost á mér aftur. Ég tel mig hafa öðlast mikla reynslu á þessum tíma og vil nýta hana til góðs fyrir félagið.

Ég tel að flestir séu sammála því að stjórn SVFR og skrifstofa hafi náð góðum árangri í að bæta rekstur félagsins síðustu ár. Ekki er langt síðan reksturinn var í járnum en nú er staðan sem betur fer önnur. Í dag nemur eigið fé félagsins um 133 milljónum króna, sem er mikill viðsnúningur á nokkrum árum. Búið er að treysta rekstrargrundvöll félagsins svo um munar sem þýðir að félagið getur sótt fram en haft samt borð fyrir báru.

Á síðustu misserum hefur stjórn félagsins lagt sig fram um að auka framboð til félagsmanna. Í því sambandi má nefna samninga um leigu á Sandá í Þistilfirði, Flekkudalsá og Miðá í Dölum. Þá hafa samningar um áframhaldandi leigu á Langá og Haukadalsá verið undirritaðir, sem er gríðarlega mikilvægt enda frábærar ár báðar tvær.

Það er alltaf hægt að gera betur og það er ég, sem og félagar mínir í stjórn, fullkomlega meðvitaður um. Mikil gróska hefur verið í silungsveiðinni og tel ég að félagið geti komið enn betur til móts við silungsveiðimenn með því að bæta við spennandi ársvæðum. Þá tel ég að félagið þurfi alltaf að vera vakandi yfir nýjum ársvæðum í laxveiðinni og þá sérstaklega ám með tiltölulega fáum stöngum, þar sem veiðimenn hugsa um sig sjálfir.

Örfá orð um sjálfan mig. Í gegnum árin hef ég verið virkur í félagsstarfi Stangaveiðifélagsins. Ég hef setið í árnefnd Langár á Mýrum og í ritnefnd Veiðimannsins. Fyrir utan veiðina þá starfa ég dag í sem ritstjóri Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áður starfaði ég um árabil sem fréttastjóri á Fréttablaðinu, var ritstjóri Blaðsins um tíma og blaðamaður á Morgunblaðinu. Ég er fæddur í Reykjavík árið 1973 og alinn upp í Mosfellssveit og í Breiðholti. Eiginkona mín er Kristín Gísladóttir þroskaþjálfi, sem er einnig með veiðibakteríuna. Eigum við tvö börn.

Að lokum. Stangaveiðifélag Reykjavíkur á streng í hjarta mínu enda stangaveiði mitt helsta áhugamál. Félagið á sér mjög merka sögu. Í gegnum árin hefur það beitt sér með ýmsum hætti í þágu stangaveiðinnar en merkasta hlutverk þess og megintilgangur er að mínu mati að vinna fyrir félagsmenn sína — áhugafólk um stangaveiði.

Veiðikveðjur,
Trausti Hafliðason