Frá 30 þús.
Vatnsdalsá í Vatnsfirði
Vatnsdalsá í Vatnsfirði er lítil tveggja stanga á sem býður upp á bæði lax- og bleikjuveiði á frábæru verði en stangardagurinn mun kosta á bilinu 30.000-65.000 kr. fyrir félagsmenn. Við teljum að ársvæðið henti sérlega vel fyrir fjölskyldur eða tvo til fjóra veiðifélaga. Aðeins er heimilt að veiða á flugu og skal öllum laxi sleppt aftur.
Efri hluti árinnar rennur úr Öskjuvatni um 2,5 km. leið í Vatnsdalsvatn og rennur neðri hluti árinnar úr Vatnsdalsvatni um 1 km. til sjávar. Heimilt er að veiða með tvær stangir til viðbótar í vatninu. Áin hefur átt sína aðdáendur í gegnum árin en síðustu tvö ár hefur hún lítið verið veidd. Áin hefur verið að skila um 30-110 löxum á sumri eftir ástundun.
Gisting
Huggulegur lítill veiðikofi, gisting fyrir tvo til fjóra. Rennandi vatn,ísskápur, gashitun og 12v rafmagn. Veiðimönnum er bent á Flókalund ef þeir vilja fleiri gistipláss.
Tímabil
1. júli- 24. september
Veiðin
Aðallega lax en mikið er af vænni bleikju. tvær stangir, eingöngu veitt á flugu og öllu sleppt.
Hentar
Byrjendum sem lengra komnum.
Veiðikofinn Stöng
Með ánni fylgir veiðikofinn Stöng sem knúinn er áfram af sólarrafhlöðu. Veiðikofinn er lítill en notalegur með frábæru útsýni.Þar er að finna svefnaðstöðu fyrir tvo til fjóra, með tvíbreiðu rúmi og tvöföldum svefnsófa, einfalt eldhús með ísskáp og gashellu í opnu alrými með litlu salerni inn af.. Rétt er að benda á að Flókalundur er í göngufæri en þar er flott tjaldstæði auk sumarhúsabyggðar sem er í útleigu hjá stéttarfélögum. Í nágrenninu er einnig að finna kaffihúsið Brjánslæk þar sem hægt er að kaupa kjöt á grillið, beint frá býli, og má sjá úrvalið þeirra á brjanslaekur.is.
Gagnlegar upplýsingar
Vatnsdalsá í Vatnsfirði | |
---|---|
Veiði hefst: | 01. júlí |
Veiði lýkur: | 22. september |
Veiðifyrirkomulag: | Tveggja og þriggja daga holl frá hádegi til hádegis |
Veiðitími 01.07 - 15.08 | 07:00 - 22:00 |
Veiðitími 15.08 - 15.09 | 07:00 - 21:00 |
Mæting, tími: | Klukkutíma fyrir veiðitíma |
Vinsælar laxaflugur: | Sunray, Frances, Green Butt, Hitch |
Vinsælar bleikjuflugur: | Bleik og blá, Krókurinn, Blóðormur, Mobuto, Galdralöpp |
Veiðireglur
Almennar
Vinsamlegast kynnið ykkur veiðireglurnar og virðið þær. Brot á veiðireglum varða fyrirvaralausum brottrekstri úr Brúará, upptöku afla og veiðafæra ásamt öðrum viðurlögum eftir því sem við á.
Gangið vel um veiðisvæðið, valdið ekki jarðraski og hirðið allt rusl. Sýnið náttúrunni virðingu og keyrið ekki utanvega. Allan afla ber að skrá í rafræna veiðibók.
Veiðireglur
Lax og bleikja | Tímabil: 01.07 - 22.09 | |
---|---|---|
Leyfilegt agn: Fluga | ||
Kvóti: Öllu sleppt | ||
Bæði efri og neðri áin, einnig má veiða í vatninu. |
Veiðistaðalýsing
Neðri áin
Ég er staddur á efsta veiðistað í neðri ánni, við svo kallaðar Grettisstillur (eða Grettistyllur) þar sem útfallið er á vatninu og þar með upphaf neðri árinnar. Þessi staður dregur nafn sitt af tveimur stórum steinum, annar alveg upp við land að vestanverðu og hin út í miðri breiðunni. Sagt er að Grettir Ásmundarson hafi stiklað á þessum steinum yfir ánna . Það verður að teljast afrek, því þarna er áin um 40 metra breið. Hægt er að veiða á þessum stað bæði að austan- og vestanverðu við ánna. Í þetta sinn held ég mig að austan verðu því vindurinn er það mikill að erfitt er að koma línunni út á móti svo sterkum vindi. Mjög aðgrunnt er að báðum bökkum og því er mikilvægt að fara varlega niður að vatninu og standa a.m.k 3-5 metra frá fjöruborðinu þegar kastað er, kannski 2-3 metra út í vatnið. Fiskurinn er þarna á mjög grunnu vatni, og leitar að æti við lágan síbreytilegan bakka sem hleðst upp undan norðan öldunni.
Eftir að hafa skipt Peecock út með Nobler og síðan Killer ákveð ég að skreppa ofar, á veiðistað sem kallaður er Svörtuloft. Mér er í fersku minni sagan af 9 ára strák sem fékk 8 punda lax á þessum stað haustið áður. Reyndar tilheyrir sá staður vatninu en ekki ánni, en ef veiðileyfi er keypt í ánna þá er leyfilegt að veiða í vatninu líka. Við Svörtuloft er of hvasst til að hægt sé að kasta með góðu móti á þessari stundu.
Ég ákveð því að færa mig neðar í átt að beygjunni ofan við brúnna. Þar er líf í tuskunum, enda hafði Finninn sem var á undan mér tekið 14 bleikjur þarna deginum áður. Rétt ofan við brúnna að austanverðu eru klappir sem mara í kafi. Þar sér maður lax stoppa áður en þeir leggja í ferðalagið gegnum Vatnsdalsvatnið. Þetta er veiðistaður sem best er að veiða að austanverðu. Þarna er straumurinn meiri þar sem áin þrengist um leið og hún rennur undir brúnna. Hér byrjar maður um 20-25 metra fyrir ofan klappirnar og lætur fyrsta kastið reka um 5 metra ofan við brotið og færir sig svo u.þ.b 10 metra niður fyrir klappir. Best er að vera upp á bakkanum, en þó getur verið í lagi að vaða aðeins út í ef mikið er í ánni. Ég set uppáhaldið mitt, græna Braham, og ég fer fyrsta rennslið án þess verða var, sennilega vegna vindgárunar á vatninu sem einnig rótar upp í leirnum við árbakkann.
Ég prófa rauða Fransis nr 12 og læt fara, en er þó ekki ánaægður með kastið því taumurinn lendir upp á línunni en rennur svo fram af henni. Vitið menn, mjög ákveðið og yfirvegað rís vestan alda upp fyrir aftan tauminn, þvert á ríkjandi vindaátt, og fiskurinn er á. Skyndilega gleymir maður norðan vindinum, kuldanum og öll þreyta er horfin. Baráttan er fremur stutt, enda vil ég koma þessu dýri á land sem fyrst svo maður sé örugglega kominn á blað þennan daginn. Það er auðvelt að landa fiski í víkinni fyrir ofan klappirnar en þó getur það verið eins og að lenda í leirbaði ef lítið er í ánni.
Veiðisvæðið frá Grettisstillum og niður að brúnni yfir ánna á þjóðvegi 64 er sennilega gjöfulasta bleikjusvæðið í ánni. Í beygjunni stoppar göngufiskur á leið upp í efri ánna. Þarna eru einnig uppeldisstöðvar staðbundins fisks í vatninu og er því afar mikilvægar uppeldisstöðvar á þessu vatnasvæði.
Breiðan fyrir neðan brúnna og niður að laxastiga er afskaplega falleg. Þetta svæði verður talsvert botngróið þegar líður fram á sumarið og verður því nokkuð óveiðilegt sökum þess. Þarna er áin hvað breiðust og best er að veiða þetta svæði allt að austan verðu við ánna. Þó er strengur á móts við stærsta steininn á breiðunni sem hægt er að veiða að vestan verðu. Segja má að það séu þrír megin veiðistaðir á þessu svæði; efsti staðurinn er rétt neðan við vatnsrennslismælinn við brúnna, annar er við grjótið fyrir miðri breiðunni sem, eins og áður sagði er einnig hægt að veiða að vestanverðu. Neðsti staðurinn er um 30 metra ofan við fossinn, á svæði ofan við litla eyri sem gengur að austanverðu út í ánna.
Veiðisvæðið neðan við fossinn og laxastigann er með eindæmum fagurt. Úr hylnum rennur áin bæði til austurs og vesturs. Kvíslin sem rennur til vesturs sameinast þeirri eystri neðst í ánni niður við árósanna. Við laxastigann er hár klettur niður að hylnum og þaðan sést vel niður í hylinn og í rennuna sem er til vesturs. Þetta er venjulega fyrsti viðkomustaður veiðimanna við ánna því þar er hægt að fylgjast með þeim fiski sem er að ganga í ánna. Laxinn safnast saman fyrir neðan laxastigann gengur svo upp hollum að því er virðist. Það getur verið afar tilkomumikið að standa á klettinum og fylgjast með lífinu í hylnum.
Samkvæmt lögum er óleyfilegt að veiða nær laxastiga en 30 metra neðan hans og 20 metra ofan hans. Þetta þýðir að óleyfilegt er að veiða í hylnum neðan fossins.
Í vestari rennunni liggur fiskur í kringum beygjuna og við efri bakka árinnar. Svæðið er mjög stutt og auðvelt að átta sig á því. Meginstraumur árinnar rennur hins vegar til austurs úr hylnum og þar er besti laxveiðiveiðistaður árinnar. Hægt er að komast yfir ánna, við hylinn að vestanverðu, og út á eyju sem myndast milli árkvíslanna. Úr eyjunni er hægt að veiða bæði austur og vestur kvíslina, þó svo að margir veiði frá hinum árbakkanum.
Í eystri kvíslinni, þar sem eystri hluti af fossinum fellur í ánna, liggur fiskur í gjótum og pollum á mörkum þess sem froðan frá fossinum hættir. Nær hylnum/stiganum er óleyfilegt að veiða. Veitt er frá þessum stað og niður rennuna og niður í beygjuna sem fær ánna til að breyta stefnu um 180?. Frá fossi og niður í beygju er um 100 metrar og er áin á þessum spotta nokkuð straumhörð. Frá beygjunni og að þeim stað sem vestari kvíslin sameinast aftur þeirri eystri eru miklar flúðir. Neðri hluti þessa spotta er veiddur úr eyjunni og gengur fiskurinn upp rennu sem liggur upp við bakkann. Vestari kvíslin rennur yfir klappir og niður í djúpa rennu í eystri kvíslinni. Þarna er afar fagur og gjöfull veiðistaður fyrir sjóbleikju og sjóbirting þegar hann gengur í ánna í byrjun september. Þessi renna heldur áfram meðfram landi um það bil150 metra út árósinn.
Í Vatnsdalsá eru leyfðar tvær stangir, ein í efri ánni og ein í neðri ánni og seldir eru tveir dagar í senn þ.e síðdegi, heill dagur árdegi. Eingöngu er leyft að veiða á flugu í ánni. Dregið er um hvar hvort hollið byrjar. Veiðin hefst kl 15 og veitt er til kl 22. Morguninn eftir hefst veiði kl 6 og veitt til kl 12 á hádegi, án þess að veiðimenn víxli veiðisvæði. Hvílt er milli kl 12 og 15, en þá víxla menn og sá sem var í neðri ánni fer nú í efri ánna og öfugt. Síðasta daginn halda menn áfram á þeim stað sem þeir voru á kvöldið áður fram til hádegis. Með þessu móti geta bæði holl veit kvölds og morgna á báðum veiðisvæðum. Það er kominn tími til að koma sér í veiðikofann og elda sér eitthvað. Hungrið er farið að segja til sín þrátt fyrir harðfisk og sviðasultu bita af og til niður eftir ánni.
Efri áin
Klukkan er farin að ganga fjögur þegar ég hef lagt bílnum við steinana sem landvörður Náttúrverndar Ríkisins hefur hlaðið þvert yfir óljósan vegslóða. Ég er kominn inn fyrir Vatnsdalsvatn á móts við svokallað Stóragil, á leiðinni upp í Gil eins og það er kallað.
Frá bílnum er 25-35 mínútna gangur upp í gilið, allt eftir því hve vel menn eru á sig komnir. Mikilvægt er að veiðimenn fari í öllu eftir leiðbeiningum og tilmælum landvarðarins því landið er viðkvæmt og hefur verið friðland frá árinu 1975.
Best er að halda sig við vesturbakka árinnar, bæði hvað varðar göngu og veiði. Dalurinn er tiltölulega sléttur og auðvelt er að fylgja kindagötum meðfram ánni og upp í gilið. Þegar maður er um hálfnaður sér maður glitta í vatnsmælimæli Orkustofnunar sem stendur á kletti ofan við stærsta hylinn í efri ánni.
Ferðinni er heitið nokkrum tugum metra ofan við mælinn. Fiskur gengur upp gilið og að háum fossi sem er rétt neðan við ármót beggja Útnorðursáa og Vatnsdalsár. Nokkru neðan við fossinn er mikill berggangur í miðri ánni og er hann efsti veiðistaðurinn í Vatnsdalsá. það er smá brölt að komast niður í gilið og maður verður að vara sig á lausa grjótinu niður að ánni.
Þegar niður er komið stendur maður andspænis bergganginum sem gnæfir yfir eins og hár veggur. Þetta er bleikjusvæði og þarna veiðist vel fyrrihluta veiðitímabilsins. Best er að byrja rétt ofan við hann og færa sig svo meðfram honum og vel niður fyrir hann. Þrátt fyrir að gilið sé nokkuð þröngt á leiðinni niður að hylnum við vatnsmælinn, þá er vert að fara yfir ánna og veiða hana að austanverðu niður að hylnum.
Hylurinn er allstór og eru háir klettar á báða vegu við hann. Nokkur vöð eru yfir ánna fyrir ofan hylinn en þar ber að fara með mikilli varúð. Þarna hafa men farið flatt og fengið blauta bunu niður í hylinn. En allir komu þeir þó aftur. Til að veiða neðri hluta hyljarins þá er nauðsynlegt að fara til baka og yfir ánna og niður fyrir vatnsmælinn. Þarna er áin mjög aðgengileg og einstakt að standa undir klettinum og kasta út í breiðan hylinn. Sumarið 2004 gaf hylurinn flesta laxa. Í venjulegri vatnshæð liggur fiskurinn neðarlega í hylnum en nokkuð ofarlega ef minna er í ánni.
Rétt neðan hyljarins eru flúðir og beygja á ánni fyrir stóra steina. Þarna er veiðistaður sem maður veiðir frá flúðum og niður fyrir beygjuna, eða þar til vatnsstraumurinn verður meiri. Þegar gengið er niður frá hylnum og í átt að Vatnsdalsvatninu blasir Austuráin við en hún steypist niður austurhlíð Vatnsdalsins. Austuráin rennur þvert að Vatnsdalsánni en þó er einungis lítill hluti hennar sem rennur í Vatnsdalsánna á þessum stað. Áin rennur samsíða Vatnsdalsánni niður dalinn en þar sameinast þær að fullu. Ekki er vitað um veiðistað í Austuránni, enda getur hún þornað upp á sumrin.
Miðja vegu frá gilinu og að Austurá er afar falleg lygna sem geymir fisk seinnipart sumars sérstaklega ef mikið er í ánni. Staðurinn er þekkist af því að rétt ofan hans er eini staðaurinn þar sem maður kemst yfir ránna ef mikið er í hanni. Þarna liggur fiskurinn upp við austurbakka árinnar og því er best að veiða þennan stað frá vesturbakkanum.
Hafi maður álpast yfir ánna á þessum stað er vænlegt að koma sér aftur yfir á sama stað og ganga sem leið liggur niður dalinn. Áin er allstraumhörð næstu 2-300 metra niður ánna. Miðja vegu milli gilsins og Stóragils eru tveir veiðistaðir með stuttu millibili. Reyndar getur þessi staður talist sem einn veiðistaður, hann er auðþekkjanlegur af fjórum sórum steinum í ánni , tveir og tveir saman. Þarna liggur fiskur á báðum stöðum og er kastað vel fyrir ofan efsta steininn og niður að þeim neðsta.
Nokkrum tugum metrum neðar eru ármót Vatnsdalsár og Austurár. En eins og áður sagði renna þessar ár samhliða niður eftir dalnum. Þessi staður er bleikjustaður, en krefst nokkurrar þolinmæði eftir minni reynslu.
Beint upp af þessum stað, uppi í vestur hlíð dalsins er svokölluð Smalahella. Þarna sprettur vatn út úr miðri hlíðinni í talsverðu magni. Haft var fyrir viðmið að menn væru orðnir fullgildir smalar í Brjánslækjarlandi þegar en þeir gátu hlaupið yfir smalahelluna í klakaböndum. Hellan er að minnstakosti 20-30 metra löng og snarbratt er niður af henni í urð og grjót. Ég hef ekki haf kjark í mér að kíkja eftir mannabeinum neðan við hana, en þau hljóta að vera allnokkur ef af líkum lætur.
Næsti veiðistaður neðan við ármótin auðkennist af því að neðst í austurhlíð dalsins eru svartir klettar niður við ánna, blautir af uppsprettu sem rennur fram af þeim. Þarna er afar falleg breiða en fiskur stoppar ekki lengi við á þessum stað og því getur verið misjafnt hvenær fiskurinn tekur. Oft er það í kjölfar stórstreymis, segja þeir sem til mest hafa veitt þarna.
Á móts við sumarbústaðinn við Stóragil er veiðistaðurinn Barðið, og dregur hann nafn sitt af móbarðinu sem fellur beint út í ánna að vestanverðu. Á þessum stað er efri hluti fyrrum tjaldstæðanna sem gerð voru í tilefni Þjóðhátíðar árið 1974. Á þeim tíma voru yfir 10.000 manns um allar grundir niður að Vatnsdalsvatninu. Það er eins og maður finni fyrir návist gamalla and þegar maður sendur á bakkanum. Sögur af konu sem datt í kamar og var böðuð á eftir í ánni, og af hreppstjóra sem náðist fullur akandi um svæðið, rifjast upp þegar maður sendur á árbakkanum og skiptir um flugu. Það er engin furða þótt hér sé veiðistaður, því fiskurinn hér hlýtur að vera forvitinn að vita hvað gerist næst, enda hafa forfeður hans væntanlega fengið ýmislegt að sjá. Enn þann dag í dag má finna flöskur með gömlum vínanda af misjöfnum gæðum víðsvegar um svæðið.
Frá Barðinu og næstum niður að vatni liggur áin í lögnum sveig til vesturs. Í miðjum þessum sveig liggur fiskurinn við eystri bakka árinnar.
Neðst í þessum sveig tekur áin svo 90? beygju til suðurs og þaðan niður í Vatnsdalsvatnið. Í þessari beygju er djúpur hylur. Áin hefur sorfið bakkann þannig að stórt stykki hefur fallið út í ánna. Þetta er fyrsti stoppustaður hjá laxinum í eftir að hann er gengin úr vatninu. Best er að veiða þennan stað frá lítilli malareyri sem er í miðri ánni og færa sig niður fyrir hylinn að austanverðu við ánna.
Árósinn er vinsælasti veiðistaðurinn í efri ánni sennilega vegna þess hve aðgengilegur hann er og gjöfull. Eyrarnar sem gangan út í vatnið tilheyra efri ánni. Hér má sjá laxinn stökkva út í vatninu og gera sig kláran að ganga upp í ánna. Hér er jafnframt afskaplega góður bleikjustaður.
Lengi vel var talið að bleikjan í vatninu og í ánni væri staðbundinn vatnableikja. Í fyrrasumar afsannaðist þessi kenning þegar hjón sem starfa bæði á Hafró eyddu dögum í sumarhúsi Vatnsfirðinum. Á hverju kvöldi um ljósaskiptin fóru þau á stjá og veiddu á þessum stað. Þessa daga veiddu þau yfir 100 bleikjur. Margar þeirra voru lúsugar þrátt fyrir að hafa gengið frá sjó gengum neðri ánna og eftir öllu vatninu.
Í þessari yfirferð gefst ekki tími til að lýsa veiðistöðum við vatnið, ég hvet þó menn til að fara austur fyrir vatnið og veiða við Lambagil og á strandlengjunni niður að Svörtuloftum. Einnig vil ég benda á veiðistaði vestan við vatnið eins og Kofanesið, sem er neðst í vatninu, Viteyrina, sem er fyrir miðju vatninu og einnig Kálfahjalla sem er innst við vatnið.
Góða skemmtun í sumar.