Frá 39 þús.

Þverá í Haukadal

Þverá rennur í Haukadalsá við veiðistaðinn Blóta, rétt fyrir neðan veiðihús Haukadalsár í Dölum. Þverá er lítil og nett einnar stangar á og er áin 13 kílómetra löng með aragrúa ómerktra hylja. Aðeins er leyfð veiði á flugu og öllum fiski skal undantekningarlaust sleppt. Áin hlykkjast niður eyðidal og myndar marga skemmtilega hylji og strengi á leið sinni niður dalinn. Enginn vegur er við ána og því þurfa veiðimenn að vera tilbúnir að hafa töluvert fyrir veiðinni og ganga 10-20 kílómetra yfir daginn. Að vera við veiðar í Þverá er frábær skemmtun og ævintýri líkast og því kjörin fyrir þá sem eru til í að leggja land undir fót í skemmtilegri veiðiferð. Veiðidögum í ánni er stillt í hóf en einungis verða seld leyfi laugardaga, sunnudaga, þriðjudaga og fimmtudaga.

Áin hentar einstaklega vel fyrir alla þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fluguveiðinni og vilja komast í skemmtilega laxveiði á góðu verði. Fyrir þá sem hafa gaman af nettri veiði og mikilli útivist þá er þessi á algjörlega kjörin því þú ert einn í heiminum við Þverá.

Vesturland, Haukadalur
Veiðitímabil: 20.06 -16.09
Stangir: 1
Agn: fluga
Kvóti: öllum fiski sleppt
Engin aðstaða
Bóka núna

Gisting

Engin gisting.

Tímabil

20. júní til 16. september.

Veiðin

Lax, 1 stöng, eingöngu fluga með flugustöng. Öllum laxi skal sleppa.

Hentar

Byrjendum sem lengra komnum.

Þverá
Umsjón og veiðivarsla

Þverá

Veiðisvæðið - Veiðin

Þverá í Haukadal er einnar stangar laxveiðiá, algjör perla sem verðlaunar þá sem hana sækja. Það er enginn vegur sem liggur meðfram Þverá heldur þarf maður að fara þetta á tveimur jafnfljótum og er aðgengið tiltölulega gott þó að það sé stundum erfitt í gljúfrinu. Laxgenga svæðið er rúmir 12 kílómetrar, hann stoppar stutt á neðri svæðunum og er fljótur að fara upp í gljúfur og þaðan upp á efstu staði.

Veiðistaðir eru margir og enginn þeirra er merktur en maður er samt ekki lengi að finna fisk í Gljúfrinu þar sem hann liggur í kristaltærum hyljum og strengjum. Leyfilegt er að tjalda meðfram Þverá og er mælt með því. Mikilvægt er að taka allt rusl með og skilja aðeins eftir fótsporin.

Gagnlegar upplýsingar


Þverá
Veiði hefst:20. júní.
Veiði lýkur:16. september.
Fjöldi stanga:1 stöng.
Veiðifyrirkomulag:07:00-22:00.
ATH! Eingöngu 12 tímar í veiði.
Mæting, staður:Enginn ákveðinn staður.
Vinsælar flugur:Frances, Sunray Shadow, Haugur, Silver Sheep og Green Butt.

Ráð frá vönum veiðimanni

Það eru nokkrar leiðir til að gera þetta, en sú einfaldasta er að beygja af þjóðveginum (60) til hægri inn á veginn sem liggur inn Haukadalinn (586). Ekið er yfir brúna sem liggur yfir Haukadalsá og strax niður til vinstri, meðfram ánni og eftir slóða í áttinni að Þverá. Slóðanum er fylgt eftir þar til komið er að gömlu brúarstæði (steypt þrenging í ánni) og þar er hægt að leggja. Best er að taka stefnuna upp á fjallshrygginn sem blasir við og labba ofan á honum (eða í hlíðinni) langt upp með ánni. Áin sjálf er þá í hvarfi ofan í gili, sem opnast að ofanverðu þar sem hún rennur á eyrum. Þar er gott að fara niður að ánni, og veiða sig niður hana í gljúfrinu (og enda þar sem bíllinn bíður).
 
Þetta er góð dagleið, en þetta þýðir að veiðimaður sleppir efri hluta árinnar. Ef menn eru mjög áhugasamir um þann hluta árinnar, þá er hægt að keyra lengra upp Haukadalinn – leggja bílnum í grennd við Snasargil og og labba yfir fjallshryginn (góðar 100 mínútur). Þaðan er svo hægt að veiða sig niður alla ána, en þá þarf líka að fá einhvern til að skutla veiðimanni aftur að bílnum að kvöldi dags. Sumir hafa líka farið frá Laxárdal að kvöldi til og jafnvel tjaldað við Þverá, en það krefst talsverðs undirbúnings og þrautseigju.
 

Leiðsögn


Leiðsögumenn SVFR eru veiðimenn með mikla og langa veiðireynslu og eru valdir af kostgæfni. Með leiðsögn verður veiðin markvissari, tíminn nýtist betur, og oftar en ekki ánægjulegri. Leiðsögumenn okkar upplýsa veiðimenn um bestu veiðistaðina í ánni, búnaðinn og veiðitækni.

  Markvissari veiði

  Fagleg ráðgjöf

Veiðireglur


Almennar

Vinsamlegast kynnið ykkur veiðireglurnar og virðið þær. Brot á veiðireglum varða fyrirvaralausum brottrekstri úr Þverá, upptöku afla og veiðafæra ásamt öðrum viðurlögum eftir því sem við á.

Gangið vel um veiðisvæðið, valdið ekki jarðraski og hirðið allt rusl. Sýnið náttúrunni virðingu og keyrið ekki utanvega. Allan afla og aflaleysi ber að skrá í rafræna veiðibók.

Sjá einnig almennar veiðireglur SVFR

LaxTímabil: 20.06 - 16.09
Leyfilegt agn: Fluga
Eingöngu leyfilegt að veiða með flugustöng.
Öllum fiski sleppt