Frá 45 Þús.
Langá – efsta svæði
Langá á Mýrum er ein af gjöfulustu og fallegustu laxveiðiám landsins. Hún á upptök sín í Langavatni sem er um 36 km frá ós árinnar og fellur í sjó vestan við Borgarnes. Stangaveiði á sér langa sögu í Langá, lengri en almennt þekkist í sögu laxveiðiáa á Íslandi. Sagan er tengd Ensku húsunum á Langárfossi en þau eru talin elstu veiðihús landsins þó þau sinni því hlutverki ekki í dag.
Gisting
Engin gisting.
Tímabil
1. ágúst til 22. september.
Veiðin
Lax og bleikja, ein stöng, eingöngu fluga með flugustöng. Kvóti er einn lax á dag undir 70cm og hvatt til hófsemdar við bleikjuveiðar.
Hentar
Byrjendum sem lengra komnum.
Veiðisvæðið - Veiðin
Efsta veiðisvæði Langár nær frá upptökum árinnar í Langavatni og nær niður að veiðistað no. 94, þ.e. næsta veiðistað fyrir ofan Ármótafljót.
Þetta svæði hýsti áður fyrr stóra urriða, sem núna eru að mestu horfnir, og bleikjustofn sem farið hefur sífellt þverrandi, sérstaklega á síðari árum. Eftir umfangsmiklar lagfæringar á hindrunum, þ.e. sprengingar á fossum og flúðum og byggingu á laxastigum, hefur lax tekið sér bólfestu á þessu svæði í einhverjum mæli.
Veiðisvæðinu, sem er um það bil 4 km að lengd, má skipta í þrjá hluta með tilliti til landslags og umhverfis en ekki síst straumlags árinnar.
Efsta svæðið nær frá upptökum árinnar við Langavatn og niður fyrir hraunjaðarinn sem áin hefur brotið sér leið um. Lengd þessa svæðis er ca. 700m. Þetta svæði er tiltölulega straumhratt upp við stíflu, en róast eftir því sem neðar dregur. Á þessu svæði eru 9 fallegir veiðistaðir sem haldið geta bæði laxi og bleikju.
Miðsvæði nær frá hraunjaðri niður undir Bjarnafoss, sem er neðan Sandvatns, sem er botnlangi út úr Langá og getur þornað upp í litlu vatni. Lengd svæðis er ca. 2 km. Það sem einkennir þetta svæði er flatlendi, grónir bakkar og hægur straumur árinnar.
Á þessu svæði eru 10-12 veiðistaðir, sem sumir hverjir eru stórir og lygnir, og fallegir strengir sem oft hýsa stórar bleikjur síðsumars.
Þegar gengið er eftir neðri hluta svæðisins í áttina að Sandvatni, þá róast rennslið mikið og þar má segja að áin breytist í stöðuvatn þar sem oft er hægt að fá góðar bleikjur en ekki lax.
Þegar komið er niður fyrir Sandvatn þá fer umhverfið að breytast og áin þrengist og rennur hraðar þar til hún fellur ofan í gljúfur við Bjarnafoss.
Fyrir ofan Bjarnafoss er er mjög falleg breiða sem heldur bæði laxi og bleikju.
Neðra svæði nær frá Bjarnafossi niður í veiðistað no.94 sem er næsti veiðistaður fyrir ofan Ármótafljót. Fjöldi veiðistaða er ca. 8. Þetta svæði býður upp á allt annað landslag en efri svæðin tvö. Þarna rennur áin miklu hraðar í gljúfrum, djúpum breiðum og straumhörðum hyljum. Eftir það fellur hún fram af Heiðasundafossi í stóran lygnan hyl sem heldur bæði laxi og bleikju. Þar fyrir neðan er síðast veiðistaður svæðisins no. 94.
Gagnlegar upplýsingar
Veiðivegir og aðkoma að ánni:
Aðkoma að tveimur efstu svæðum árinnar er annars vegar að aka veginn upp að stíflu og veiða þaðan niður ána. Hins vegar og betra er að aka vegarslóða sem liggur út frá aðalveginum til hægri rétt áður en komið er að hraunjaðrinum. Ef ekki er mikið vatn í ánni er best að vaða yfir á austurbakkann, ganga upp að vatni og veiða niður ána.
Miðsvæðið er betra að veiða af vesturbakka en austurbakki getur líka gefið vel.
Aðkoma að neðra svæði. Keyrt er fram hjá afleggjara sem liggur að ármótum. Aðalvegur ekinn ca. 3-500m ekið niður brekku þar til nánast er komið niður á flatlendi, þá er afleggjari til hægri í áttina að ánni. Frá bílastæði ca. 15-20 mínútna ganga upp fyrir Bjarnafoss. Ekki mjög greiðfært því ganga þarf yfir móa og hraun. Farið upp fyrir fossinn og upp að hraunbrúninni. Gott að veiða bæði vestur og austurbakkann og byrja mjög ofarlega og veiða alveg niður á fossbrún.
Langá - efsta svæði | |
---|---|
Veiði hefst: | 1. ágúst. |
Veiði lýkur: | 22. september. |
Fjöldi stanga: | Ein stöng. |
Veiðifyrirkomulag: | 09:00-21:00. |
Mæting, staður: | Enginn ákveðinn staður. |
Leiðsögn
Leiðsögumenn SVFR eru veiðimenn með mikla og langa veiðireynslu og eru valdir af kostgæfni. Með leiðsögn verður veiðin markvissari, tíminn nýtist betur, og oftar en ekki ánægjulegri. Leiðsögumenn okkar upplýsa veiðimenn um bestu veiðistaðina í ánni, búnaðinn og veiðitækni.
Markvissari veiði
Fagleg ráðgjöf
Veiðireglur
Almennar
Vinsamlegast kynnið ykkur veiðireglurnar og virðið þær. Brot á veiðireglum varða fyrirvaralausum brottrekstri úr Þverá, upptöku afla og veiðafæra ásamt öðrum viðurlögum eftir því sem við á.
Gangið vel um veiðisvæðið, valdið ekki jarðraski og hirðið allt rusl. Sýnið náttúrunni virðingu og keyrið ekki utanvega. Allan afla og aflaleysi ber að skrá í rafræna veiðibók.
Lax | Tímabil: 20.06 - 16.09 | |
---|---|---|
Leyfilegt agn: Fluga Eingöngu leyfilegt að veiða með flugustöng. | ||
Öllum fiski sleppt | ||