Kæru félagar
Síðustu fjögur ár hef ég setið í stjórn SVFR, auk þess sem ég sat í stjórninni frá 2011 ti 2017. Á þessum tíma hef ég tvisvar gegnt varaformennsku; annars vegar undir formennsku Árna Friðleifssonar og hins vegar Jóns Þórs Ólasonar, sem nú lætur af embætti. Sjálf hef ég einlægan áhuga á að vinna fyrir SVFR og býð mig því fram til formennsku.

Eftir samtals tíu ára setu í stjórn SVFR þekki ég félagið vel. Með samstarfsfólki í framvarðasveit félagsins hef ég lifað tímana tvenna, bæði góð ár og mögur, og reynslan af hvoru tveggja er dýrmæt. Þá reynslu vil ég nýta til hagsbóta fyrir félagsmenn og tryggja að okkar fornfræga félag verði áfram bakbeinið í íslensku veiðisamfélagi. Það er sérstaklega ánægjulegt að rekstur og fjárhagur SVFR sé nú traustur, að endurnýjun samninga um leigu ársvæða hafi heppnast vel, að sala veiðileyfa standi í miklum blóma, að félagsmönnum hafi fjölgað og félagslífið tekið kipp.
Engu að síður eru mörg verkefni framundan og stjórn SVFR mun áfram þurfa að fást við krefjandi verkefni. Hefðbundinn rekstur þarf áfram athygli stjórnar, en einnig er nauðsynlegt að rýna áfram innra starf félagsins; vinnulag, lög og reglur. Mig dreymir um aukið samtal félagsmanna um hlutverk og stefnu SVFR, aukið samstarf um ólíka þætti í rekstrinum, siðferði, réttindi og skyldur veiðimanna. Mig langar að leiða það starf og vonast til að fá umboð til þess á aðalfundinum þann 23. febrúar nk.

Ég vil efla samfélag veiðikvenna og -karla, þar sem gengið er til veiða af hófsemi og með virðingu fyrir bráðinni og öðrum veiðimönnum. Ég vil efla ungmennastarf félagsins og vera í fararbroddi við að kynna gildi stangveiðinnar fyrir veiðimönnum framtíðarinnar. Ég vil tryggja að nægilega mörg og fjölbreytt veiðisvæði standi félagsmönnum til boða með góðu samstarfi við bændur og aðra landeigendur. Ég vil horfa til langs tíma og freista þess að vinna náið með viðsemjendum SVFR, með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi. Ég vil að náttúran njóti vafans og ég hlusta á rök fræðasamfélagsins þegar kemur að verndun náttúrunnar. Ég er andvíg sjókvíaeldi og vil allt laxeldi upp á land.

Ég er 57 ára gömul, gift og á stóra og samhenta fjölskyldu. Ég er menntuð sem fjölmiðlafræðingur og hef unnið við framleiðslu og dagskrárgegerð í sjónvarpi í 30 ár. Ég greindist ung með veiðibakteríuna og hóf mínar veiðar í Hraunholtslæknum í Garðahreppi.

Ég er stolt af mínu framlagi til félagsins og óska því eftir stuðningi þínum til formanns á aðalfundi SVFR 23.febrúar 2023.

Með kærri veiðikveðju,
félagi 488
Ragnheiður Thorsteinsson