Ég býð mig fram í stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur á aðalfundi 23. febrúar því ég hef mikinn áhuga á að starfa í stjórn þess og veit að kraftar mínir nýtast vel í það góða starf þar er unnið.
Ég hef fylgst vel með öflugu starfi Stangaveiðifélagsins undanfarin ár og langar mig til að taka þátt í að viðhalda því. Félagið stendur mér nærri enda er veiði án efa eitt það skemmtilegasta sem ég geri og í gegnum hana hef ég átt ógleymanlegar stundir með dætrum mínum, eiginmanni og vinum og kynnst ógrynni af skemmtilegu fólki.

Ég er með veiðibakteríuna á háu stigi og hef veitt á fjölbreyttum veiðisvæðum félagsins undanfarin ár því í mínum huga er fiskur fiskur og því hef ég veitt fleiri ársvæði félagins en góðu hófi gegnir. Ég er að verða fastagestur við bakka Elliðaár, Flekkudalsár, Flókadalsár efri, Haukadalsár, Langár, Leirvogsár, Sandár, Varmár og svo er Gufudalsá á dagskrá í sumar. Þessar ár hafa allar sína sérstöðu og eitthvað aðdráttarafl sem dregur mann til sín aftur og aftur, já það gæti verið einhver taka!

Sem betur fer er ég svo heppin að geta tvinnað saman störf og áhugamál en ég er bókaútgefandi og bóksali í Sölku og höfum við gefið út nokkrar frábærar bækur um veiði og eru fleiri spennandi bækur um veiði á leiðinni. Ég er ein af eigendum Flugufrétta sem er vikulegt fréttabréf um fluguveiði en það hefur komið út á hverjum föstudegi frá árinu 2000. Ég hef bæði reynslu og þekkingu af stjórnarstörfum en ég er formaður stjórnar Hússtjórnarskólans, hef lokið námi í ábyrgð og árangri stjórnarmanna og verið formaður stjórnar Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Einnig hef ég mikla reynslu af markaðs- og kynningarmálum og samskiptum við fjölmiðla sem ég tel að nýtist vel þar sem að Stangaveiðifélagið þarf að halda áfram að hafa öfluga rödd i baráttunni gegn sjókvíaeldi.

Undanfarin ár hefur almennur áhugi á veiði aukist til muna og er mikil nýliðun í röðum veiðimanna eins og fjölmenn og vel heppnuð opin hús félagsins undanfarið hafa sýnt. Barnadagar í Elliðaánum eru líka frábært framtak til að kynna þessa ástríðu fyrir nýrri kynslóð veiðimanna en oft má vart á milli sjá hvort séu spenntari foreldrar eða börn. Ég hef mikinn áhuga á því að auka veg félagsins og aðgengi félagsmanna að fjölbreyttum og eftirsóttum veiðisvæði í öllum verðflokkum ásamt því að halda áfram að byggja upp öfluga fræðslu fyrir veiðimenn, unga sem aldna.
Sjáumst á árbakkanum, strekktar línur!

 

Dögg Hjaltalín