Efsta veiðisvæði Langár nær frá upptökum árinnar í Langavatni og nær niður að veiðistað no. 94, þ.e. næsta veiðistað fyrir ofan Ármótafljót.
Þetta svæði hýsti áður fyrr stóra urriða, sem núna eru að mestu horfnir, og bleikjustofn sem farið hefur sífellt þverrandi, sérstaklega á síðari árum. Eftir umfangsmiklar lagfæringar á hindrunum, þ.e. sprengingar á fossum og flúðum og byggingu á laxastigum, hefur lax tekið sér bólfestu á þessu svæði í einhverjum mæli.
Veiðisvæðinu, sem er um það bil 4 km að lengd, má skipta í þrjá hluta með tilliti til landslags og umhverfis en ekki síst straumlags árinnar.
Efsta svæðið nær frá upptökum árinnar við Langavatn og niður fyrir hraunjaðarinn sem áin hefur brotið sér leið um. Lengd þessa svæðis er ca. 700m. Þetta svæði er tiltölulega straumhratt upp við stíflu, en róast eftir því sem neðar dregur. Á þessu svæði eru 9 fallegir veiðistaðir sem haldið geta bæði laxi og bleikju.
Miðsvæði nær frá hraunjaðri niður undir Bjarnafoss, sem er neðan Sandvatns, sem er botnlangi út úr Langá og getur þornað upp í litlu vatni. Lengd svæðis er ca. 2 km. Það sem einkennir þetta svæði er flatlendi, grónir bakkar og hægur straumur árinnar.
Á þessu svæði eru 10-12 veiðistaðir, sem sumir hverjir eru stórir og lygnir, og fallegir strengir sem oft hýsa stórar bleikjur síðsumars.
Þegar gengið er eftir neðri hluta svæðisins í áttina að Sandvatni, þá róast rennslið mikið og þar má segja að áin breytist í stöðuvatn þar sem oft er hægt að fá góðar bleikjur en ekki lax.
Þegar komið er niður fyrir Sandvatn þá fer umhverfið að breytast og áin þrengist og rennur hraðar þar til hún fellur ofan í gljúfur við Bjarnafoss.
Fyrir ofan Bjarnafoss er er mjög falleg breiða sem heldur bæði laxi og bleikju.
Neðra svæði nær frá Bjarnafossi niður í veiðistað no.94 sem er næsti veiðistaður fyrir ofan Ármótafljót. Fjöldi veiðistaða er ca. 8. Þetta svæði býður upp á allt annað landslag en efri svæðin tvö. Þarna rennur áin miklu hraðar í gljúfrum, djúpum breiðum og straumhörðum hyljum. Eftir það fellur hún fram af Heiðasundafossi í stóran lygnan hyl sem heldur bæði laxi og bleikju. Þar fyrir neðan er síðast veiðistaður svæðisins no. 94.