Frá 20 þús

Bíldsfell

Bíldsfellssvæðið er í huga margra einn samfelldur veiðistaður. Veiðilegir strengir, straumbrot og ólgur eru óteljandi og veiðimenn því ævinlega „rétt byrjaðir“ þegar veiðiferð lýkur. Sumarið 2011 var gott í Soginu en þá veiddust 750 laxar (að undanskyldu svæðinu við Syðri Brú) og þar af voru 405 laxar veiddir í Bíldsfelli. Metsumarið 2010 veiddust 480 laxar í Bíldsfelli.

Einnig er á svæðinu mikið af bleikju sem getur verið mjög stór. Margir veiðimenn heimsækja svæðið eingöngu til að gera út á bleikjuna. Í Soginu máttu eiga von á 20 pundurum, það veiddust þrír slíkir sumarið 2011. Veiðihúsið við Bíldsfell hefur verið stækkað og nú fer enn betur um veiðimenn á þessu frábæra svæði.

Suðurland, Sog
Veiðitímabil: 25.06 - 18.09
Stangir: 3, seldar saman
Agn: Fluga
Kvóti: 1 á vakt
7 manns í sjálfsmennsku
Bóka núna
Bíldsfell

Veiðisvæðið - Veiðin

Veiðisvæði Bíldsfells er víðfemt og fiskar geta leynst víða. Það er ekki fyrir óvana að lesa í vatnið á svæðinu og á það sinn þátt í að skapa leyndardóma Bíldsfells. Þrátt fyrir að áin sé stór og breið þá er hægt að skipta henni upp og veiða hvert svæði eins og verið væri að veiða einn hyl í talsvert minni á. Það er hægt að vaða útí á einum stað, veiða sig niður einn „streng” og við endann á honum, taka nokkur skref aftur á bak og veiða niður næsta „streng”. Þannig er nánast hægt að segja að Bíldsfells svæðið sé einn samfelldur veiðistaður.

Vinsælir veiðistaðirnir eru Bíldsfellsbreiðan, Efri-Garður, Neðri-Garður, Tóftin og Víkurhorn. Mikilvægt er að byrja að veiða áður en vaðið er út í því fiskurinn liggur gjarnan nær en mann grunar.

Það er algengur misskilningur að stórar og þungar flugur gefa best í Soginu, laxinn kemur oft í yfirborðstökur og er Sunray afar öflug fluga. Fleiri vinsælar flugur eru Black Braham, Frances, Green Butt, Haugur, Iða, Silver Sheep og Undertaker.

Víða hentar vel að vera með tvíhendur en það er engan veginn nauðsynlegt og víða eru einhendur besta veiðitækið.